Tanja Ýr og Egill ákváðu flytja til útlanda í miðjum heimsfaraldri: Ætla að elta veðrið

Stjörnuparið Tanja Ýr Ástþórsdóttir og Egill Halldórsson ákváðu að venda sínu kvæði í kross og flytja til útlanda í miðjum kórónuveirufaraldri. Parið er þekkt fyrir ævintýraþrá sína og hafa fylgjendur þeirra á Instagram getað fylgst með ferðalögum parsins um allan heim undanfarin ár.

Egill deilir því í færslu á Instagram-síðu sinni að parið hafi dreymt um að flytja til útlanda síðustu ár og hafi loks ákveðið að slá til og láta drauma sína rætast. Þau leigðu út íbúð sína á besta stað í 101 Reykjavík, með öllu tilheyrandi, og bókuðu flug af landi brott.

Parið er ekki búið að skipuleggja ævintýrið lengra en svo að fyrstu 10 næturnar hafi þau bókað í fallegri Airbnb-íbúð í 7 þúsund manna smábænum Kas í Suður-Tyrklandi. Parið flaug til Istanbúl en þar sem ástandið vegna Covid-19 er ekki gott í borginni hafi þau ákveðið að stoppa ekkert þar heldur keyra rakleiðis til Kas, sem er um 9 klukkustunda akstur. Kas hafi orðið fyrir valinu því þaðan á parið ljúfar minningar frá sumarfríi árið 2018, þar sé um 70% ódýrara að lifa en á Íslandi og ekki skemmi fyrir að á þessum tíma árs er milt og gott veður á þessum slóðum.

Á Instagram-síðu sinni segir Egill að næstu skref séu óráðin. Þau ætla að flakka eitthvað um heiminn og að einhverju leyti elta veðrið.

Egill og Tanja Ýr eru bæði í rekstri. Hún rekur fyrirtækið Glamista Hair ásamt vinkonu sinni Kolbrúnu Elmu, sem og Tanja Yr Cosmetics þar sem hún selur vinsæl gerviaugnhár. Egill er sjálfur frumkvöðull og er annar eigandi Gorilla vöruhús og Wake Up Reykjavík auk þess sem þau eru bæði afar vinsæl á Instagram. Parið er því svo heppið að geta að mestu leyti stundað sinn rekstur í gegnum netið.

Egill segir ennfremur að Tanja Ýr sé ekki á heimleið til Íslands í bráð en sjálfur hyggst hann flúgja heim til að sinna vinnunni hér heima annanhvern mánuð.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum parsins á Instagram-síðum þeirra.