Hvað þýða algengustu draumarnir og hvernig átt þú að bregðast við þeim?

Hvað þýða algengustu draumarnir og hvernig átt þú að bregðast við þeim?

Okkur dreymir öllum marga drauma á hverri einustu nóttu en fæstir muna draumana sína þegar þeir vakna um morguninn.

Það gerist þó stundum að við vöknum upp frá draumi eða munum skyndilega eftir einhverju sem okkur dreymdi þegar við erum að gera eitthvað allt annað seinna um daginn.

Margir vilja túlka draumana sína og upplifa þá jafnvel sem skilaboð eða ákveðin leiðarvísi að því sem koma skal en það getur þó verið flókið. Sálfræðingurinn Ian Wallance hefur skoðað drauma og merkingu þeirra á þrjátíu ára ferli sínum.

Hérna getur þú lesið um níu algengustu drauma fólks, komist að því hvað þeir þýða og hvað þú ættir að gera ef þér skyldi dreyma þetta.

Mynd: Getty

1. Að finna herbergi í húsi sem þú þekkir en hefur aldrei tekið eftir, komið inn í áður.

Hvað draumurinn þýðir: Hvert einasta herbergi í húsinu sem þig dreymir táknar ólíka fleti á persónuleikanum þínum. Svo ef þig dreymir herbergi sem þú hefur aldrei komið inn í þá þýðir það að þú sért um það bil að uppgötva nýjan hæfileika eða áhugasvið sem þú hefur ekki verið meðvitaður um hingað til.

Hvað ættir þú að gera: Farðu í sjálfskoðun. Leitaðu inn á við og skoðaðu hvort það sé eitthvað sem þú gætir mögulega gert öðruvísi í þeim tilgangi að virkja hæfileika sem hingað til hefur aðeins blundað í þér. Það gæti orðið til þess að nýjar dyr opnist.

2. Að keyra stjórnlausan bíl

Hvað draumurinn þýðir: Bílinn endurspeglar hæfni þína til að standa við ákvörðun eða nálgast markmið sem þú veist, innst inni, að þú ættir að stefna að óhindrað.  Að sama skapi þýðir það að þú hefur ekki nógu mikla stjórn á þér til að halda þér á beinu brautinni að þessu ákveðna verkefni.

Þetta ættir þú að gera: Í stað að reyna að ná stjórn á aðstæðunum ættir þú heldur að losa takið og láta eðlisávísunina finna réttu leiðina að markmiðinu.

3. Að detta

Hvað draumurinn þýðir: Þegar þig dreymir að þú sért að detta þýðir það að þú haldir of fast í einhverjar ákveðnar aðstæður í vöku. Þú þarft að slaka á takinu og helst sleppa því.

Þetta ættir þú að gera: Í stað þess að hræðast það að missa tökin á aðstæðunum þá ættir þú að treysta á sjálfan þig og aðra með því að leyfa hlutum að gerast náttúrulega.

4. Að fljúga

Hvað þýðir draumurinn: Það að geta flogið í draumi þýðir að þú hefur sleppt tökunum á aðstæðum sem hafa haldið þér niðri í langan tíma.

Þetta ættir þú að gera: Þó svo að þessi þér gæti fundist þessi frelsandi tilfinning eiga meira skylt við heppni eða tilviljun, þá þýðir hún að þér hefur tekist að yfirstíga ákveðna erfiðleika og eða tekið erfiða ákvörðun.

5. Að mæta óundirbúinn í próf

Hvað það þýðir: Að dreyma það að vera í prófi  er merki um hæfni okkar í ákveðnum aðstæðum. Það gæti jafnframt bent til þess að þú sért í verulegri naflaskoðun.

Þetta ættir þú að gera: Í stað þess að velta þér endalaust upp úr því hvað þú eigir að gera í lífinu ættir þú að nýta þá hæfileika sem þú hefur og fagna því sem þú hefur áorkað hingað, í stað þess að brjóta þig niður.

6. Að vera nakinn innan um fullt af fólki

Hvað draumurinn þýðir: Yfirleitt er það svo að fólk klæðir sig í takt við þá ímynd sem aðrir hafa af viðkomandi.  Að vera nakinn í innan um mikið af fólki gæti því þýtt að þú ert að ganga í gegnum tímabil þar sem þér finnst þú óöruggur og berskjaldaður gagnvart öðrum.

Þetta ættir þú að gera: Í stað þess að bæla niður hvernig þér líður ættir þú að prófa að segja fólki frá því. Vittu til, þér á eftir að líða eins og þungu fargi hafi verið létt af þér.

7. Að komast ekki á klósettið

Hvað þýðir draumurinn: Draumurinn er merki um að þú sért ekki að sinna grunnþörfum þínum, í daglegu lífi, nógu vel.

Þetta ættir þú að gera: Að eyða meiri tíma í sjálfan þig og einblína á það sem þú vilt fá út úr lífinu en ekki þarfir annarra

8. Að missa tönn

Hvað draumurinn þýðir: Tennurnar eru merki um það hversu öruggur og voldugur þér þykir þú vera í daglegu lífi.

Þetta ættir þú að gera: Í stað þess að finnast þú vera að missa tökin á tilverunni ættir þú að að setjast niður, hugsa vandamálin sem þú stendur frammi fyrir upp á nýtt og líta á þau sem verkefni, ekki ógn

9. Að vera eltur

Hvað draumurinn þýðir: Þú stendur frammi fyrir erfiðum aðstæðum sem þú hefur enga hugmynd um hvernig þú ættir að tækla.

Þetta ættir þú að gera: Draumurinn er merki um að þú ættir að sækja meira í að ná persónulegu markmiði sem þú hefur lengi reynt að ná með því að sleppa tökum á óttanum og keyra þig áfram í áttina að því. 

Nýjast