Alls er 41 bíll á vegum Reykjavíkurborgar á nagladekkjum en ekki tveir eða þrír eins og fram kom í svari borgarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins fyrir skemmstu. Nagladekk á næstu vikum fjarlægð af 27 bílum sem velferðarsvið hefur í þjónustu sinni.
Fréttablaðið fjallar um þetta í dag en þann 29. október greindi blaðið frá því að vegfarendur hefðu veitt því athygli að bíll merktur borginni væri á nagladekkjum þrátt fyrir yfirlýsingar borgarinnar um að nagladekk væru óþörf innan borgarlandsins og auk þess skaðleg umhverfinu.
Fréttablaðið sendi aðra fyrirspurn fyrir 24 dögum og kom svar í þessari viku. Kemur á daginn að alls eru 41 bíll á vegum borgarinnar á nagladekkjum en ekki aðeins tveir eða þrír eins og fyrst var sagt. Fyrir utan fimm bíla sem tengdir eru skíðasvæðunum.
Í svari borgarinnar kemur fram að velferðarsvið sé með bíla á rekstrarleigu undir heimaþjónustu og aðra þjónustu og reyndust 27 af þeim vera á nagladekkjum. Segir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, teymisstjóri samskiptasviðs borgarinnar, að allir eigi þeir pantaðan tíma í dekkjaskipti á næstu vikum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er á meðal þeirra sem hvatt hefur borgarbúa til að nota annan valkost en nagladekkin innan borgarinnar. Árið 2016 tók hann til dæmis að sér umfelgun á dekkjaverkstæði í Grafarvogi og var fjallað um uppátæki hans í fréttum Stöðvar 2.
Í fréttinni kom fram að Degi væri umhugað að sem fæstir keyrðu á nagladekkjum í borginni, bæði vegna svifryks og slits á malbiki. Tók hann því málin í sínar eigin hendur á dekkjaverkstæðinu í Grafarvogi.