Hjón sem ákváðu að stíga um borð í flugvél á leið frá San Francisco í Bandaríkjunum til Hawai gætu átt þunga refsingu yfir höfði sér.
Þau fóru nefnilega um borð í vélina vitandi að þau væru bæði smituð af COVID-19. Hjónin, Wesley Moribe og Courtney Peterson voru handtekin við komuna til Lihue á mánudag.
Í frétt San Francisco Chronicle kemur fram að hjónin hafi farið í skimun á flugvellinum áður en haldið var úr landi. Í henni greindust þau jákvæð og fengu þau skýr skilaboð þess efnis að fara beint í einangrun. Það var ekki fyrr en nokkru síðar að upp komst að þau höfðu látið þau skilaboð sem vind um eyru þjóta og farið um borð.
Hjónunum var sleppt lausum gegn tryggingu á Hawai en þau hafa verið ákærð fyrir að stefna velferð farþega flugvélarinnar í hættu. Að líkindum þarf talsverður fjöldi fólks nú að fara í sóttkví vegna gjörða þeirra en ekki liggur fyrir hvort einhver hafi smitast.
Strangar sóttvarnareglur eru í gildi á Hawai vegna fjölda smita, en þeir sem hyggjast heimsækja eyjaklasann þurfa að gangast undir skimun, ellegar sæta fjórtán daga sóttkví.