Vissu að þau væru með CO­VID-19 en fóru samt um borð í flug­vélina

Hjón sem á­kváðu að stíga um borð í flug­vél á leið frá San Francisco í Banda­ríkjunum til Hawai gætu átt þunga refsingu yfir höfði sér.

Þau fóru nefni­lega um borð í vélina vitandi að þau væru bæði smituð af CO­VID-19. Hjónin, Wesl­ey Mori­be og Court­n­ey Peter­son voru hand­tekin við komuna til Li­hue á mánu­dag.

Í frétt San Francisco Chronic­le kemur fram að hjónin hafi farið í skimun á flug­vellinum áður en haldið var úr landi. Í henni greindust þau já­kvæð og fengu þau skýr skila­boð þess efnis að fara beint í ein­angrun. Það var ekki fyrr en nokkru síðar að upp komst að þau höfðu látið þau skila­boð sem vind um eyru þjóta og farið um borð.

Hjónunum var sleppt lausum gegn tryggingu á Hawai en þau hafa verið á­kærð fyrir að stefna vel­ferð far­þega flug­vélarinnar í hættu. Að líkindum þarf tals­verður fjöldi fólks nú að fara í sótt­kví vegna gjörða þeirra en ekki liggur fyrir hvort ein­hver hafi smitast.

Strangar sótt­varna­reglur eru í gildi á Hawai vegna fjölda smita, en þeir sem hyggjast heim­sækja eyja­klasann þurfa að gangast undir skimun, ellegar sæta fjór­tán daga sótt­kví.