Vill að foreldrar sem missa maka fái sorgarleyfi og greiðslur frá Vinnumálastofnun á meðan

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, hefur lagt fram frumvarp um sorgarleyfi vegna makamissis fyrir fjölskyldur þar sem börn undir 18 ára hafa misst foreldri.

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag bendir hún á að ár hvert verði um hundrað börn á Íslandi fyrir því þunga áfalli að missa foreldri.

„Á árunum 2009–2018 misstu rúmlega 1000 börn á Íslandi foreldri skv. tölum Hagstofunnar en þá létust 649 foreldrar barna undir 18 ára aldri; 448 feður og 201 móðir. Um 40% foreldranna létust úr krabbameinum. Í ofanálag við lífsins stærstu sorg þessara barna þá glímir það foreldri sem eftir stendur við erfiðar aðstæður, tekjumissi og jafnvel fjárhagsáhyggjur.“

Í frumvarpi Þorbjargar er lagt til að foreldrar barna yngri en 18 ára sem missa maka sinn fái heimild til að taka allt að 6 mánaða leyfi frá vinnu og greiðslur frá Vinnumálastofnun á meðan. Hægt verði að taka leyfið á 2 ára tímabili frá andláti makans.

„Fjölskylduaðstæður eru auðvitað ólíkar og hugtakið foreldri er þess vegna skilgreint víðara en almennt er gert í lögum. Aðrir en foreldrar eða forsjáraðilar geta þannig talist foreldrar í skilningi laganna hafi þau gegnt foreldraskyldum gagnvart barni 12 mánuði eða lengur. Þá eru líka lagðar til útfærslur vegna mismunandi aðstæðna fólks á vinnumarkaði og um styrk í tilviki námsmanna.“

Þorbjörg segir að miklu skipti að þessu fjölskyldum sé veitt svigrúm til sorgarúrvinnslu og til að vera til staðar fyrir þau börn sem ganga í gegnum sára sorg og missi. Foreldrar í þessari stöðu séu nú háðir því að vinnuveitandi hafi svigrúm til að veita frí eða sveigjanleika í starfi. Hugsunin að baki séu ekki síst hagsmunir barnanna sem í hluti eiga.

„Sorgarmiðstöðin og Krabbameinsfélagið hafa bent á mikilvægi þess að festa sorgarleyfi í lög. Alþingi getur veitt þessum fjölskyldum mikilvægan stuðning með því að sameinast um þetta frumvarp. Í því felast skilaboð um að við ætlum sem samfélag að vera til staðar fyrir þau börn sem missa foreldri,“ segir Þorbjörg Sigríður að lokum.