Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, varð fyrir miklu áfalli sumarið 1952 þegar bróðir hennar, Þorvaldur Finnbogason, lést af slysförum. Þorvaldur drukknaði í Hreðavatni en skömmu áður hafði hann orðið stúdent.
Í dag verður heimildarmynd um Vigdísi sýnd á RÚV, en um er að ræða mynd eftir Steinunni Sigurðardóttur sem fyrst var sýnd árið 1995. Vigdís varð sem kunnugt er níræð á dögunum en hún gegndi embætti forseta Íslands á árunum 1980 til 1996.
Á vef RÚV er birt brot úr myndinni en þar ræðir Vigdís meðal annars um bróðurmissinn.
„Það var aðeins eitt og hálft ár á milli okkar þannig að við ólumst upp sem leikfélagar. Ég var stóra systir og ég gætti hans ákaflega vel. Hann var gimsteinninn í lífi mínu og ákaflega gjörvulegur drengur.“
Vigdís segist hafa verið hreykin af bróður sínum og minnist hans með mikilli hlýju. „Hann stálpaðist og þroskaðist til þess að verða góður stærðfrææðingur,“ segir hún og bætir við að faðir hennar hafi sagt, þegar bróðir hennar dó, að Vigdís hefði misst mest við fráfall Þorvaldar.
„Ég horfði á hann af því mér fannst þau hafa misst svo mikið. Eftir því sem árin liðu þá skynjaði ég sannleikann í því vegna þess að ég missti þann förunaut sem hefði fylgt mér alla ævi og miklu lengur en þau. Og ég sakna hans mjög mikið enn þann dag í dag.“
Myndin er á dagskrá RÚV í dag klukkan 16:30.