Víðir stoppaði Arnþrúði af á upplýsingafundi: „Hvenær kemur fjórða sprautan?“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Almannavarna, stöðvaði Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu, af á upplýsingafundi Almannavarna nú í morgun. Minnti hann Arnþrúði á að fulltrúar fjölmiðla fengju aðeins eina spurningu hver.

Arnþrúður, sem hefur ekki verið tíður gestur á fundunum, vakti töluverða athygli en upp á síðkastið hafa verið líflegar umræður um heimsfaraldurinn á útvarpsstöðinni.

Arnþrúður spurði Þórólf út í bólusetningar:

„Í samningnum um bóluefnin kemur fram að um lyfjatilraun sé að ræða sem verði ekki lokið fyrr en árið 2024. Heilbrigðisráðherra, Willum Þór, sagði á fundi velferðarnefndar um daginn að þessu yrði ekki lokið fyrr en 2026. Af hverju hafið þið ekki valið að fara þá leið að segja þjóðinni frá því að hún væri að taka þátt í lyfjatilraun?,“ spurði hún.

„Hvenær kemur fjórða sprautan?,“ bætti hún við eftir að Þórólfur var byrjaður að svara.

Þórólfur svaraði þessu: „Ég veit ekki hvað þú ert að vísa til með lyfjatilraun. Það er Lyfjastofnun sem gefur markaðsleyfi fyrir notkun lyfjanna að undangengnum rannsóknum og tilraunum,“ sagði hann. „Ég er ekki aðili að þessum samningi og ég get ekki sannreynt það sem þú ert að halda fram að hér að þar standi að hér sé um lyfjatilraun að ræða. Ég vil draga það í efa. Þetta er ekki lyfjatilraun. Við erum að nota hér lyf sem hefur verið rannsakað til að koma í veg fyrir ákveðinn sjúkdóm, hættulegan sjúkdóm. Hér er um heimsfaraldur að ræða og ég tel að það sé búið að uppfylla allar kröfur til lyfja og bóluefna sem við getum gert í slíku ástandi.“

Arnþrúður sagði þá: „En er það þá rangt hjá heilbrigðisráðherra að þessu ljúki ekki fyrr en 2026, sem hann fullyrti við velferðarnefnd Alþingis?“

Þórólfur svaraði að bragði:

„Ég ætla ekkert að fara að ræða um eitthvað sem þú fullyrðir að einhver hafi sagt. Ég hef ekki heyrt það og ég veit það ekki. Þú verður að spyrja hann sjálfan.“

Arnþrúður ætlaði að halda áfram: „Vísindasiðanefnd…“

Greip þá Víðir fram í fyrir henni: „Arnþrúður. Við höfum ekki tíma. Eins og fram kom fyrir fundinn var bara ein spurning á mann. Takk fyrir þína spurningu Arnþrúður.“