Víðir segir þetta aðeins tímaspursmál: Verður einhver mesta niðurlæging Íslandssögunnar

Víðir Sigurðsson, einn reyndasti íþróttafréttamaður okkar Íslendinga, segir það aðeins tímaspursmál hvenær Ísland þarf að spila sinn fyrsta heimaleik á erlendri grundu. Sú stund nálgist en við vitum ekki nákvæmlega enn þá í hvaða íþróttagrein það verður.

Þetta kemur fram í pistli Víðis á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

„Nægja áætlanir um nýja þjóðarhöll til þess fá undanþágur fyrir heimaleikina í handbolta og körfubolta næstu tvö árin? Og verður sú ágæta höll komin af teikniborðinu og orðin að veruleika eftir þrjú ár? Verður hægt með einhverjum dýrum töfrabrögðum að spila umspilsleiki í fótbolta á Laugardalsvellinum í mars árin 2026 eða 2027?“

Víðir segir að við eigum ekki boðlega keppnisaðstöðu fyrir íþróttafólkið okkar. Úrelt mannvirki sem standast ekki kröfur séu heimavellir okkar fólks og það styttist óðfluga í að þau verði ekki lengur nothæf.

„Sænskir og norskir bæir á stærð við Kópavog eiga leikvanga og hallir sem myndu flokkast sem glæsileg mannvirki fyrir landsleiki og aðra stóra viðburði hér á landi. Skoðið bara íþróttamannvirki í bæjum eins og Kalmar, Drammen, Kristianstad og Álasundi. Bæjarfélög með 30 til 60 þúsund íbúa eiga aðstöðu sem heil þjóð sem telur sig íþróttasinnaða, alla vega þegar vel gengur, getur ekki státað af,“ segir Víðir sem er ósáttur við þetta, eðlilega.

„Hvers vegna í ósköpunum er sambærileg aðstaða ekki komin hér á landi fyrir löngu síðan? Árið er 2023 og ekki einu sinni búið að taka skóflustungu. Staðan í þessum málum er landi og þjóð til skammar. Það er gömul tugga. En þegar að því kemur að Ísland spilar heimaleik í Þórshöfn í Færeyjum eða Kristianstad í Svíþjóð verður það einhver mesta niðurlæging Íslandssögunnar.“