Varar mæður við því að láta drengina þeirra „falla fyrir lygum þessa manns“

Kona nokkur birti í dag færslu í Facebook-hópi ætluðum mæðrum þar sem hún varar foreldra við skilaboðum manns nokkurs með öfgakenndar skoðanir.

Umræddur maður heitir Andrew Tate og virðist vera ansi vinsæll á samfélagsmiðlinum TikTok, og þá sérstaklega á meðal drenga á unglingsaldri. Hann er hvað þekktastur fyrir umdeildar skoðanir sínar um konur.

„Ég hef aðeins verið að taka eftir frekar hættulegri þróun hjá íslenskum unglingsstrákum sem virðast vera að fylgjast með manni sem heitir Andrew >Tate. Fyrir ykkur sem ekki þekkja hann þá er þetta maður sem hatar konur og segir m.a. að þér séu eign karla,“ skrifar konan í færslu sinni.

Það er ekki nóg með það heldur segir konan að Andrew þessi Tate starfræeki pýramídasvindl þar sem hann plati karlmenn og drengi til að kaupa aðgang að myndböndum sínum þar sem hann dreifir þessu hatri sínu.

Þá greinir konan frá því að íslensk kona hafi gangrýnt Tate á Tiktok, og fyrir það hafi hún fengið gríðarlega óviðeigandi og ósæmileg viðbrögð frá íslenskum drengjum.

Að lokum hvetur hún aðrar mæður til að fylgjast með því hvort að drengirnir þeirra séu að „falla fyrir lygum þess manns, þetta viðhorf er konum hættulegt!“

Í ummælakerfinu hafa skapast miklar umræður um málið, en þar virðast flestar mæður sammála um að skilaboð þessa manns séu ekki æskileg ungdómnum.