„Það þarf einhver að taka ábyrgð á þessu,“ segir Valgarður Reynisson, kennari doktorsnemi og þolandi eineltis, í viðtali við fréttavef DV.
Einelti hefur verið talsvert í umræðunni hér að landi eftir að fjallað var um gróft eineltismál í Garðabæ í síðustu viku. Valgarður skrifaði pistil um einelti á vef Vísis í gær sem vakti talsverða athygli.
Í pistlinum sagði hann að tilhugsunin um að refsa börnum sem leggja í einelti – og ekki hafa náð sakhæfisaldri – til dæmis með því að flytja þau í annan skóla eða á meðferðarheimili sé ekki beint aðlaðandi.
„En það þarf ekki að refsa gerendum til þess að ná fram þeim jákvæðu áhrifum sem viðurlög við einelti gætu skilað. Að gera foreldra gerenda í eineltismálum skaðabótaskylda vegna ofbeldis ólögráða barna sinna gæti skilað mun betri árangri í þeim tilfellum þar sem skólar reyna að leysa eineltismál með samvinnu heimilis og skóla,“ sagði Valgarður í pistlinum. Hann útskýrði þetta svo frekar í viðtali við DV.
„Ef fólk vill fara þá leið sem er algengust, að leysa þetta með einhvers konar samræðum milli foreldra þolenda og foreldra gerenda, þá verður að vera til staðar alvöruhvati fyrir foreldra gerenda til að taka raunverulegan þátt í ferlinu. Eins og staðan er í dag er sá hvati ekki fyrir hendi. Fyrir um tíu árum kynntu meistaranemar niðurstöður rannsóknar sem bendir til þess að fýsilegt gæti verið að beita refsiábyrgð og skaðabótaábyrgð í eineltismálum. Fjölskyldutrygging foreldra gerenda í eineltismálum yrði þá að greiða út bætur, sem til dæmis væri hægt að nota til að gera þolanda kleift að skipta um skóla og flytja í annað hverfi. Lausnirnar eru til, ég er ekki að finna upp hjólið.“