Val­garður leggur til að for­eldrar þeirra sem leggja í ein­elti verði látnir borga skaða­bætur

„Það þarf ein­hver að taka á­byrgð á þessu,“ segir Val­garður Reynis­son, kennari doktors­nemi og þolandi ein­eltis, í við­tali við frétta­vef DV.

Ein­elti hefur verið tals­vert í um­ræðunni hér að landi eftir að fjallað var um gróft ein­eltis­mál í Garða­bæ í síðustu viku. Val­garður skrifaði pistil um ein­elti á vef Vísis í gær sem vakti tals­verða at­hygli.

Í pistlinum sagði hann að til­hugsunin um að refsa börnum sem leggja í ein­elti – og ekki hafa náð sak­hæfis­aldri – til dæmis með því að flytja þau í annan skóla eða á með­ferðar­heimili sé ekki beint að­laðandi.

„En það þarf ekki að refsa ger­endum til þess að ná fram þeim já­kvæðu á­hrifum sem viður­lög við ein­elti gætu skilað. Að gera for­eldra ger­enda í ein­eltis­málum skaða­bóta­skylda vegna of­beldis ó­lög­ráða barna sinna gæti skilað mun betri árangri í þeim til­fellum þar sem skólar reyna að leysa ein­eltis­mál með sam­vinnu heimilis og skóla,“ sagði Val­garður í pistlinum. Hann út­skýrði þetta svo frekar í við­tali við DV.

„Ef fólk vill fara þá leið sem er al­gengust, að leysa þetta með ein­hvers konar sam­ræðum milli for­eldra þol­enda og for­eldra ger­enda, þá verður að vera til staðar al­vöru­hvati fyrir for­eldra ger­enda til að taka raun­veru­legan þátt í ferlinu. Eins og staðan er í dag er sá hvati ekki fyrir hendi. Fyrir um tíu árum kynntu meistara­nemar niður­stöður rann­sóknar sem bendir til þess að fýsi­legt gæti verið að beita refsi­á­byrgð og skaða­bóta­á­byrgð í ein­eltis­málum. Fjöl­skyldu­trygging for­eldra ger­enda í ein­eltis­málum yrði þá að greiða út bætur, sem til dæmis væri hægt að nota til að gera þolanda kleift að skipta um skóla og flytja í annað hverfi. Lausnirnar eru til, ég er ekki að finna upp hjólið.“