Tobba segir Íslendinga glíma við þetta vandamál: „Mér líður eins og ég sé að svíkjast um“

Þúsundþjalasmiðurinn Þorbjörg Marínósdóttir, betur þekkt sem Tobba Marinós, skrifar áhugaverðan bakþanka í Fréttablaði dagsins.

„Lóan er komin að kveða burt snjóinn – en ekki virðist hún blessunin ætla að taka með sér yfirvinnublæti okkar Íslendinga,“ skrifar Tobba.

„Af hverju get ég fullorðin manneskjan ekki lagt mig um miðjan dag þegar ég á frí og er örmagna án þess að vakna úrill með samviskubit? Mér líður eins og ég sé að svíkjast um. Aumingi með dregið fyrir um miðjan dag. Það virðist engu skipta að ég hef þennan dag engum öðrum skyldum að gegna en að hvíla mig eftir aðgerð.“

Tobba bendir á að Íslendingar virðist vera aldir upp við það að þeir þurfi alltaf að vera að gera eitthvað.

„Vinkonurnar hafa sömu sögu að segja. Ein í veikindaleyfi en getur með engu móti lagt sig eftir að hafa komið barnaskaranum út á morgnana nema að upplifa sig sem einskisnýtan aumingja. Við erum nefnilega alin upp við að vera alltaf að gera eitthvað.“

Hún spyr hvaða þýðingu dugnaður og metnaður hafi þegar maður leyfir sér ekki að hvíla sig. Hún bendir einnig á að hvíld sé líka dyggð.

„Við vitum núna að of mikil vinna er ömurð sem rænir fólk heilsu og fjölskyldu en það er ekki hægt að hætta að vinna stanslaust þegar það er búið að forrita þig til yfirvinnu. Hvernig getur fólk bara slökkt á yfirvinnublætinu? – hvort sem það er þegar það er 67 ára eða komið á vegg vegna vinnu?“

Tobba endar síðan pistill sinn á þessum orðum:

„Fokking lóan er stanslaust í eyranu.

„Hún hefur sagt mér til syndanna minna, ég sofi of mikið og vinni ekki hót. Hún hefur sagt mér að vaka og vinna og vonglaður taka nú sumrinu mót.“

Fokking lóan.“