„Eftir það það fer einhvern veginn allt úr skorðum. Þetta finnst mér líka mjög spennandi viðfangsefni, hvernig einn atburður getur litað líf allra í fjölskyldunni,“ segir Þorsteinn J. Vilhjálmsson, sjónvarps- og fjölmiðlamaður, í viðtali við Sigurlaugu M. Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 2.
Í þættinum fóru þau Sigurlaug og Þorsteinn um víðan völl og komu meðal annars inn á bókina Takk mamma eftir Þorstein sem kom út árið 2000. Fjallar bókin að hluta um samband Þorsteins við móður sína sem lést úr krabbameini, 67 ára. Samband þeirra var á köflum stormasamt, móðir hans glímdi við þunglyndi og alkóhólisma og kemur fram í viðtalinu að hún hafi burðast með sorg sem hún vann aldrei í.
Atburðurinn sem Þorsteinn vísar í er hörmulegt banaslys þegar fimm ára gamall móðurbróðir hans varð fyrir bíl á Kaplaskjólsvegi. „Þessi atburður setur alla fjölskylduna á hliðina,“ segir Þorsteinn í viðtalinu og bætir við að aldrei hafi verið talað um drenginn eða slysið. „Það var aldrei talað um neitt,“ segir hann og bætir við að hann virði þá ákvörðun að byrgja sorgina inni þó það sé ekki besta leiðin.
„Með því að draga tjöldin frá og skoða þessa hluti og hvaða áhrif þeir höfðu er ég ekki að dæma móður mína, afa og ömmu eða bræður mömmu. Alls ekki. Ég er að reyna að sjá hvaða áhrif þetta hafði,“ segir Þorsteinn.
Í viðtalinu ræðir Þorsteinn einnig um föður sinn sem hann hitti þegar sá síðarnefndi var kominn á gamals aldur.
Þorsteinn situr ekki auðum höndum og vinnur nú að margmiðlunarverki sem nefnist Ég skal vera ljósið. Um er að ræða bók, hljóðbók og rafbók og er sögusviðið slippurinn, hjarta Reykjavíkur eins og Þorsteinn orðar það.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Þorstein hér.