Þórólfur um óhugnanleg veikindi að undanförnu: „Við höfum ekki verið að sjá þetta áður, þetta er nýtt“

„Við höfum ekki verið að sjá þetta áður, þetta er nýtt,“ sagði Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnarlæknir, í þættinum Þetta helst á RÚV í gær.

Í þættinum var fjallað um streptókokkasýkingar sem hafa geisað hér á landi undanfarna mánuði en þær þykja mun svæsnari en oft áður.

Fram kom að rúmlega 60 sjúklingar hafi þurft að leggjast inn á spítala síðustu mánuði og þá hafa þrír látist af völdum streptókokka.

„Streptókokkar eru að valda miklu alvarlegri sjúkdómum nú en oft áður, eins og blóðsýkingum og þar sem þeir ráðast inn í vefi fólks, vöðva og lungu og valda mjög alvarlegum sjúkdómum. Mér skilst að rúmlega sextíu manns hafi verið innlagðir vegna alvarlegra streptókokkasýkinga frá því í nóvember og þar af held ég að þrír hafi látist. Þetta er mjög óvenjulegt landslag núna sem kallar meðal annars á breytta nálgun á streptókokkasýkingar almennt,“ sagði Þórólfur í þættinum en fjallað er um málið á vef RÚV.

Ekkert bendir til þess að bakterían hafi stökkbreyst en sýkingarnar nú eru engu að síður alvarlegri en þær sem áður hafa komið upp.

„Þetta er það sem er kallað á ensku Flesh eating bacteria sem hefur alltaf komið upp af og til. Og þetta eru alvarlegu sýkingarnar sem eru að koma núna, ekki þessar hefðbundnu streptókokkasýkingar sem eru venjulega í gangi,“ sagði Þórólfur og bætti við að þetta geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, jafnvel þó fólk lifi sýkinguna af. Til séu dæmi um að gera hafi þurft stórar aðgerðir á fólki til að fjarlægja vöðva og vefi.