Þorgerður hjólar í ríkisstjórnina: „Þessi leikfimi þeirra líktist leit að syndaaflausn“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fer hörðum orðum um ríkisstjórnina í grein sem birtist íFréttablaðinu í dag, en þar sakar hún hana um að lifa í sýndarveruleika og reyna að beina sjónum almennings í hann.

„Fullyrðingar eru settar fram og síðan treyst á að þær verði ekki skoðaðar, hvað þá leiðréttar.“ segir hún.

Hún byrjar á að tala um að í vikunni hafi Vinstri græn sagst ætla að hækka veiðigjöld, sen segir sannleikann vera annan: „Þegar raunin er sú að verið er að dreifa Covid-lækkun stjórnvalda í fimm ár. Þessi leikfimi þeirra líktist leit að syndaaflausn eftir stanslausa undanlátssemi gagnvart Sjálfstæðisflokknum og stórútgerðinni.“ segir Þorgerður.

Þá víkur hún sér að Lilju Alfreðsdóttur, viðskiptaráðherra.

„Annað dæmi var þegar viðskiptaráðherra barði sér á brjóst um snilldina í hagstjórninni. Tekjuaukinn væri svo mikill. Hann er þó fyrst og fremst tilkominn vegna viðskiptahalla við útlönd. Í raun erlend og ósjálfbær lántaka þjóðarbúsins.“ skrifar hún:

„Neysluskattstekjur ríkissjóðs hér eru því ósjálfbærar. Það skynsama við slíkar aðstæður er að nýta þann tekjuauka og greiða niður erlendar skuldir. Eitt af því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði að hefði verið gert vel fyrir hrun var að nýta tekjur til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs lækkuðu því verulega og það veitti dýrmæta viðspyrnu síðar. Þessi ríkisstjórn ætlar allt aðrar leiðir. Vaxtagjöld hafa stóraukist og eru nú þriðji stærsti útgjaldaliðurinn, verða tæpir 100 milljarðar á næsta ári eða svipað og fer í málaflokk aldraðra. Skýra framtíðarsýn er hvergi að finna í fjárlagafrumvarpinu, hvað þá umbætur á kerfum til að tryggja samkeppnishæf lífskjör.“

Í lok greinar sinnar segir Þorgerður að ríkisstjórnin byggi ekki á raunveruleikanum, heldur sýndarveruleika.

„Pólitískt meirihlutasamstarf krefst málamiðlana en í þessu samstarfi virðist engin skýr ákvörðun hafa verið tekin um það hvernig ná eigi jafnvægi í ríkisfjármálum og forgangsraða fjárveitingum betur. Eftir situr ósjálfbær og óábyrg stefna. Sýndarveruleiki í stað raunveruleikatengingar.“

Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.