Fjölmargir Íslendingar eða um 9000 talsins styrkja bágstödd börn sem búa í SOS barnaþorpum víða um heim.
Inga Lind Karlsdóttir fór í janúar síðastliðnum til að hitta í fyrsta skipti SOS börnin sín en þau hafa búið í Greenfields barnaþorpinu í Indlandi þar sem 38 Íslendingar eiga styrktarbörn.
Inga Lind ræðir í kvöld við Lindu Blöndal í þættinum 21 um fund hennar með börnunum en hún var 18 ára þegar hún hóf fyrst að styrkja hina fjögurra ára Soniu sem nú er tæplega þrítug og hefur samband hennar og Ingu Lindar varað í aldarfjórðung. Sonia er nú flutt frá þorpinu eða „farin að heiman“ en kom í heimsókn til að hitta Ingu Lind sem hefur fékk í staðinn annað barn til að styrkja í sama þorpi. Á Indlandi hún því líka unglingsdreginn Pushkar sem hún tók við þegar Sonia varð fullorðin en Pushkar var bara barn þá. „Ég hugsaði bara, er þetta litla barnið sem ég er að styrja? Þetta er algjör töffari, orðinn sautján ára og rosalega góður í íþróttum“, segir Inga Lind hlæjandi.
En hvernig kom henni fyrir sjónir þorpið sem Sonia ólst upp í og svo Pushkar? Var þetta eitthvað sem hún bjóst við?
„Að einhverju leyti já en svo líka kemur eitthvað á óvart. Það var svo mikið af glöðum börnum á öllum aldri og allir í vináttu og allir að leika og rosalega forvitin um okkur en allir kureisir en þau voru bara, ja eins og börn eru, fara þarna á milli húsa og þau eiga vini og systkini, í raun og veru er næstum hægt að segja að þessi börn séu ekki munaðarlaus vegna þess að þau fá þarna móður sem sér um allt upp í tíu börn sem verða bara börnin hennar“, segir Inga Lind sem fór með tveimur af sínum fimm börnum og eiginmanni í heimsóknina.
„Þær fórna lífi sínu í þetta, hugsaðu þér og ein móðirin sem ég talaði við er búin að ala upp 38 börn og ég fékk bara tár í augun þegar hún sagði mér þetta og spurði mig: er hægt að gera meira í lífinu?“
Hún segir SOS barnaþorp hugsa svo um mæðurnar þegar þær eldast og sjái þeim fyrir vist á efri árum á dvalarheimilum.
En hvernig var tilfinningin að hitta Soniu eftir öll þessi ár?
„Ég hlakkaði alveg ofsalega til“
Inga Lind náði í heimsóknina áður en nálgunarbannið vegna Covid-19 kom til.
„Þetta var bara hlýtt og gott og innilegt knús“, segir hún.
Fyrst og fremst eru SOS Barnaþorpin barnahjálp sem veitir munaðarlausum og yfirgefnum börnum staðgengil fyrir þá fjölskyldu sem þau hafa misst. SOS Children´s Villages eru stærstu óháðu hjálparsamtök heims sem einblína á börn án foreldraumsjár og ósjálfbjarga barnafjölskyldur.
Samtökin starfa í 136 löndum, óháð stjórnmálum og trúarbrögðum. Þau ná til yfir einnar milljónar barna, ungmenna og fullorðinna í gegnum meira en tvö þúsundverkefni.