Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, er allt annað en sáttur með Ferðamálastofu fyrir að hafa klippt Ivu Marin úr auglýsingu sinni vegna tengsla hennar við LGB-teymið en samtökin hafa verið gagnrýnd fyrir transfóbíu.
„Þetta mál sýnir hvað auðvelt er að fá okkur til að taka þátt í kúgun og ofbeldi gagnvart öðru fólki. Við hrökklumst alltaf undan ofstækisliðinu í stað þess að bjóða því birginn. Þótt Iva Marín sé blind er hún með betri sýn en við flest og er greinilega skelegg og bráðvelgefin. Hún er málefnaleg og kemur hugsun sinni vel frá sér. Hún er efni í góðan lögfræðing,“ skrifar Brynjar um Ivu.
Fjölmargir taka undir með Brynjari þar á meðal bróðir hans Gústaf Níelsson sem segir að þetta sýni að kerfislegt ofbeldi hefur náð að hreiðra um sig í samtíð okkar.
„Ótrúlegt að forstöðumaður, sem sækir aðstoð hjá landsmönnum, sjái ekkert að því að vanvirða tjáningarfrelsi landsmanna, þar að auki eigin skjólstæðinga og mannauðs. Einstaklega ómerkilegt,“ segir Júlíus Þór bess Rikharðsson.
Ekki eru þó allir sammála Brynjari og segja margir honum að skoða samtökin sem Iva er bendluð við. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, er meðal þeirra sem láta Brynjar heyra það.
„Þetta mál sýnir hvað auðvelt er að fá okkur til að taka þátt í kúgun og ofbeldi gagnvart öðru fólki." Þarna hittirðu naglann beint á höfuðið, það er jú einmitt stóra vandamálið. Gallinn er að þú ert alveg úti í skurði Brynjar minn, því að minnihlutahópurinn sem verður fyrir ofbeldi og kúgun í stærra samhenginu hér er ekki blindar söngkonur sem fá ekki að vera með í auglýsingamyndböndum því þær hafa ýmigust á trans fólki, heldur trans fólkið sjáðu til. Fólk hefur fullt málfrelsi. Fólk hefur hins vegar ekki frelsi frá því að annað fólk, samtök eða stofnanir hafi skoðanir á því sem það segir og gerir, og taki ákvarðanir út frá því um hvort það á heima í kynningarmyndböndum. Eða til upprifjunar,“ skrifar Jóhannes og birtir mynd sem má sjá hér að neðan.
„Fólk má hafa þá skoðun og frelsi til að tjá hana“
Júlíus Þór var ekki ánægður með svar Jóhannes og svarar honum fullum hálsi:
„Fólk hefur málfrelsi og tekur afleiðingunum... Það getur verið í formi persónulegrar höfnunar og flestir vita það. Fyrir nokkrum árum vissu hinsvegar nánast allir að þú ferð ekki svo langt að þú tekur lífsviðurværi af fólki eða notar beint vald þitt til að þagga í viðkomandi þegar þér líka illa við skoðanir þeirra. Flestir stjórnendur virtust hafa hógværðina til að viðurkenna að kannski hefur hin manneskjan rétt fyrir sér en yfirmaðurinn ekki. Þannig viðurkennir hann ágæti lýðræðis og temur sér kærleiksríka hugsun í garð náunga síns. Það sem þú talar um varðandi samtök og stofnanir er gjarnan kallað valdníðsla.“
Jóhannes gefur lítið fyrir svör Júlíusar og bendir honum á ða það sé ekki verið að þagga niður í neinum hér. „Var Iva ekki í bæði útvarpsviðtali og öðrum fjölmiðlum í dag? Hér eru félagasamtök og stofnun að velja sér talsmenn fyrir kynningarherferð, og taka í reikninginn að athygli vegna umdeildra mála gætu dregið athygli frá skilaboðum herferðarinnar. Það er alþekkt aðferðafræði í auglýsingamennsku og almannatengslum.Varðandi kærleiksríka hugsun í garð náunga sinna legg ég til að þú kíkir á málflutning hópsins sem Iva hefur lagt nafn sitt við og veldur því að hún þykir ekki heppilegur talsmaður í þessu tilfelli. Þar er djúpt á kærleikanum gagnvart náunganum, nema náunginn falli innan þess ramma sem sá hópur telur sér þóknanlegan.“
Brynjar mætir þá í eigin athugasemdir og svarar Jóhannesi: „Margt fólk hefur ýmigust á mér og mínum sjónarmiðum. Fólk má hafa þá skoðun og frelsi til að tjá hana. Ég er ekki að heimta að það verði útskúfað vegna þeirra skoðunnar eða mega ekki vera í kynningarmyndböndum um óskylt efni. Þeir sem skilja ekki muninn á þessu ættu ekki að tjá sig um tjáningarfrelsi eða mannréttindi yfirhöfuð.“