Tekinn með heróín og fenta­nýl á Kefla­víkur­flug­velli

Lands­réttur hefur stað­fest úr­skurð Héraðs­dóms Reykja­ness þess efnis að maður, sem gripinn var með mikið magn fíkni­efna og lyf­seðils­skyldra lyfja á Kefla­víkur­flug­velli þann 5. septem­ber síðast­liðinn, skuli sæta far­banni uns dómur gengur í máli hans. Búist er við því að dómur verði kveðinn upp á morgun.

Maðurinn var að koma frá Wroclaw í Pól­landi þegar toll­verðir tóku hann til hliðar og leituðu í far­angri hans. Viður­kenndi maðurinn að vera með fíkni­efni í fórum sínum og sagðist hann hafa flutt lyfin og fíkni­efnin til landsins gegn lof­orði um greiðslu frá til­teknum aðila.

Rann­sóknar­stofa Há­skóla Ís­lands tók efnin til rann­sóknar en í ljós kom að um var að ræða 76,66 grömm af heróíni, 139,3 grömm af Keta­vor, 1.533 töflur af Oxyconton, 40 stykki af Contal­gin Uno, 20 stykki af Fentanyl Acta­vis plástrum, 335,5 stykki af Met­hylp­heni­date Sandoz töflum, 10 stykki af Morfín-töflum, 330 stykki af Rivotril-töflum og 168 stykki af Ste­solid.

Maðurinn sem um ræðir er er­lendur ríkis­borgari og ekki með tengsl við land og þjóð, önnur en þau að tengjast sam­verka­manni sínum sem einnig er á­kærður í málinu. Taldi lög­regla af þessum sökum að hætta væri á að maðurinn reyndi að koma sér úr landi eða koma sér undan fullnustu refsingar.

Í úr­skurðinum kemur fram að maðurinn hafi játað brot sitt fyrir dómi, en sem fyrr segir er gert ráð fyrir að dómur í málinu verði kveðinn upp á morgun.