Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að maður, sem gripinn var með mikið magn fíkniefna og lyfseðilsskyldra lyfja á Keflavíkurflugvelli þann 5. september síðastliðinn, skuli sæta farbanni uns dómur gengur í máli hans. Búist er við því að dómur verði kveðinn upp á morgun.
Maðurinn var að koma frá Wroclaw í Póllandi þegar tollverðir tóku hann til hliðar og leituðu í farangri hans. Viðurkenndi maðurinn að vera með fíkniefni í fórum sínum og sagðist hann hafa flutt lyfin og fíkniefnin til landsins gegn loforði um greiðslu frá tilteknum aðila.
Rannsóknarstofa Háskóla Íslands tók efnin til rannsóknar en í ljós kom að um var að ræða 76,66 grömm af heróíni, 139,3 grömm af Ketavor, 1.533 töflur af Oxyconton, 40 stykki af Contalgin Uno, 20 stykki af Fentanyl Actavis plástrum, 335,5 stykki af Methylphenidate Sandoz töflum, 10 stykki af Morfín-töflum, 330 stykki af Rivotril-töflum og 168 stykki af Stesolid.
Maðurinn sem um ræðir er erlendur ríkisborgari og ekki með tengsl við land og þjóð, önnur en þau að tengjast samverkamanni sínum sem einnig er ákærður í málinu. Taldi lögregla af þessum sökum að hætta væri á að maðurinn reyndi að koma sér úr landi eða koma sér undan fullnustu refsingar.
Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn hafi játað brot sitt fyrir dómi, en sem fyrr segir er gert ráð fyrir að dómur í málinu verði kveðinn upp á morgun.