Rafn Benediktsson, yfirlæknir innkirtlalækninga á Landspítalanum, segir mikinn kostnað fylgja notkun sykursýkislyfja. Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna lyfjanna, sem eru meðal annars notuð sem meðferð við ofþyngd, hefur rúmlega fimmfaldast á undanförnum árum samkvæmt RÚV.
Rafn segir lyfin gagnleg við að grennast, en ekki fyrir alla. Þau séu ekki lausnin við aukinni ofþyngd þjóðarinnar.
„Ég held að það sé ekki sjálfbært fyrir þjóðfélag eins og okkur að setja alla í skurðaðgerð eða á lyf. Það gengur ekki til lengdar. Það er er of dýrt? Það er allt of dýrt, það mun setja okkur á hausinn,“ sagði Rafn. Það sé heldur ekki hægt að láta fólk hreyfa sig meira og borða minna.
Stakk hann upp á annarri lausn. Gera teymi sem aðstoði fólk við aðferðir á borð við mikla hitaeiningaskerðingu í ákveðinn tíma og í framhaldinu sé samband sjúklinganna við mat endurstillt.
Rafn skorar á Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að gera það að veruleika:
„Það væri upplagt fyrir nýjan heilbrigðisráðherra að gera þetta að sínu baráttumáli, að búa til teymi sem þjálfaði svo önnur teymi, þannig að til yrði þekking og kunnátta og reynsla víða um land til að takast á við svona mál,“ sagði Rafn.
Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, baráttukona fyrir líkamsvirðingu, er ekki sátt við Rafn og segir á Facebook:
„Er ég að skilja þetta rétt? Lyfjameðferðir og aðgerðir eru bæði of dýrar og ekki vænlegar til langtíma árangurs svo að lausnin er...að svelta fólk? Af því að það hefur ekki verið reynt margoft áður?,“ segir hún.
„Af því að það hefur ekki verið rannsakað bak og fyrir hvaða líkamlegu og andlegu afleiðingar það hefur í för með sér en sem dæmi eru þyngdaraukning og sykursýki 2? Og að endurstilla samband fólks við mat? Því að feitt fólk er upp til hópa stjórnlaust lið sem hefur engar hömlur á áti sínu?“
Sakar hún Rafn um fordóma:
„Ég er bara orðlaus. Þessi orðræða samrýmist ekki einu sinni nýjustu þekkingu innan þyngdarmiðuðu nálgunarinnar og er fordómafull í þokkabót.“