Systkinin Hanna Björg og Páll ekki sammála: „Við lærum það að kynin eru tvö“ – „Páll Vilhjálmsson!“

Systkinin Hanna Björg Vilhjálmsdóttir og Páll Vilhjálmsson eru alls ekki sammála um hvað kynin eru mörg, þau ræddu það í viðtali hjá Morgunblaðinu. Hanna Björg hefur vakið mikla athygli í haust eftir að hún skrifaði harðorða grein um KSÍ sem endaði með afsögn stjórnarinnar. Páll hefur hins vegar lengi vakið mikla athygli með bloggskrifum sínum sem rata reglulega í Staksteina Morgunblaðsins, síðasta hneyksli var þegar hann dróg í efa geðheilsu Helga Seljan.

Páll ræddi samband sitt við Hönnu við DVnýlega: „Mér þykir mjög vænt um systur mína Hönnu og við höfum lært það í gegnum tíðina að vera sammála um að vera ósammála um suma hluti í lífinu,“ segir Páll. Það var þó kannski ekki alltaf raunin og þurftu foreldrar þeirra stundum að stilla til friðar þegar systkinin tókust á.

Þau mættu síðan saman til Eggerts Skúlasonar í Dagmálum Morgunblaðsins. Þar fá landsmenn smá nasanef af því sem foreldrar þeirra þurftu að glíma við.

„Við lærum það að kynin eru tvö,“ sagði Páll í umræðu um fjölda kynja.

Systir hans var fljót að grípa frammí fyrir honum: „Nei, þau eru fleiri.“

Páll er greinilega vanur og brást hratt við: „Hvort eru þau þrjú, fimm eða sautján?“

Hanna Björg: „Það skiptir bara engu máli.“

Páll: „Nei, einmitt. Þau eru bara tvö. Sjáðu, hún er ekki sammála mér.“

Hanna var ekki sátt: „Ertu að segja að það séu bara til tvö kyn?“

Páll: „Já ég er að segja það.“

Hanna sagði þá: „Ó mæ god! Fólk sem segist ekki vera stelpa eða strákur. Ætlar þau bara að segja: „Jú þú ert annað hvort.“

Páll hélt ró sinni: „Það eru bara til tvö kyn.“

Hanna skammaði hann með fullu nafni: „Páll Vilhjálmsson!“

Páll spurði á móti: „Hvað eru þau þá mörg? Eru þau þrjú hundruð?“

Hanna skilur ekkert í bróður sínum: „Það veit ég ekkert um.“

Páll hélt þá áfram: „Leyf mér að útskýra þetta. Þetta sem Hanna er að vísa til hefur valdið stórkostlegum skaða austanhafs og vestan.“

Hér má sjá stikluna.