Flugstjórar hjá Icelandair Group voru með 2,1 milljón króna í mánaðarlaun að meðaltali árið 2019. Morgunblaðið greinir frá þessu og vísar í svar félagsins við skriflegri fyrirspurn blaðsins. Greiðslur vegna dagpeninga námu að auki rúmum 140 þúsund krónum á mánuði.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að meðallaun flugmanna hafi að sama skapi verið 1,1 milljón króna miðað við fullt starf.
Flugmenn og flugstjórar eru með töluvert hærri laun en flugfreyjur og yfirflugfreyjur. Þannig voru meðallaun yfirflugfreyja 740 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf en meðallaun flugfreyja 540 þúsund krónur. Fyrir utan föst mánaðarlaun koma einnig greiðslur vegna dagpeninga en að meðaltali voru þær 140 til 145 þúsund krónur á mánuði.
Staða Icelandair hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu en félagið vill lækka launakostnað sinn umtalsvert. Hringbraut birti í gær launaseðil flugfreyju en þar kom fram að laun hennar fyrir skatt væru 393.278 krónur. Útborguð laun voru 294.708 krónur.
„Ég skil ekki hvernig ég á að geta lækkað í launum, þegar við erum bara að fá launatrygginguna okkar án dagpeninga þá er þetta ekki neitt neitt. Er ekki viss um að fólk átti sig hversu lág grunnlaunin okkar eru,“ sagði flugfreyjan sem hefur verið í fullu starfi hjá Icelandair.