Framleiðslu og sölu á svaladrykknum svalandi Svala verður hætt í lok árs og því ljóst að ávaxtabræðurnir fjörugu, sem svalað hafa þorsta landsmanna í tæplega fjörutíu ár, hverfa úr hillum stórmarkaða og verslana áður en langt um líður.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Coca-Cola á Íslandi. Þar segir að vegna breytinga á þörfum og smekk neytenda hafi verið ákveðið að hætta framleiðslu.
„Við höfum átt farsæla áratugi í fylgd Svala en hann er engu að síður barn síns tíma og við erum á annarri vegferð í dag. Kröfur neytenda og smekkur fólks þróast í sífellu og samhliða því þurfum við að fara yfir árangur og stöðu vörumerkja okkar reglulega,“ er haft eftir Einari Snorra Magnússyni forstjóra.
„Við kveðjum því Svala að svo búnu og þökkum honum samfylgdina,“ segir Einar.