Svali verður ekki lengur framleiddur

Fram­leiðslu og sölu á svala­drykknum svalandi Svala verður hætt í lok árs og því ljóst að á­vaxta­bræðurnir fjörugu, sem svalað hafa þorsta lands­manna í tæp­lega fjöru­tíu ár, hverfa úr hillum stór­markaða og verslana áður en langt um líður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Coca-Cola á Íslandi. Þar segir að vegna breytinga á þörfum og smekk neytenda hafi verið ákveðið að hætta framleiðslu.

„Við höfum átt far­sæla ára­tugi í fylgd Svala en hann er engu að síður barn síns tíma og við erum á annarri veg­ferð í dag. Kröfur neyt­enda og smekkur fólks þróast í sí­fellu og sam­hliða því þurfum við að fara yfir árangur og stöðu vöru­merkja okkar reglu­lega,“ er haft eftir Einari Snorra Magnússyni forstjóra.

„Við kveðjum því Svala að svo búnu og þökkum honum sam­fylgdina,“ segir Einar.