Starfsemi Droplaugastaða færð undir alþjóðlegt gæðaeftirlit

Droplaugarstaðir hafa fyrst hjúkrunarheimila á Íslandi tekið í notkun alþjóðlegt gæða – og eftirlitskerfi en með því eru stjórnendur staðarins að leggja störf sín undir náið og reglulegt eftirlit óháðs þriðja aðila.

Jórunn Frímannsdóttir, forstöðumaður Droplaugarstaða mætti í þáttinn 21 til Lindu Blöndal í kvöld, mánudag.

Droplaugarstaðir fá gæðavottun ISO 9001 fyrst hjúkrunarheimila á Íslandi. Á Droplaugarstöðum eru rúmlega 80 íbúar og stórt skref tekið með þeirri vinnu sem vottunin krefst í að gera þjónustuna betri og ekki síst öruggari.

Slík vottun fer vel á blaði gætu sumir hugsað og Jórunn tekur undir það en útskýrir að í þessu sé heimilið að skuldbinda sig til að láta óháðan aðila taka út allt starfið og það sé gert reglulega og algerlega sjálfstætt og utan við stjórnendur heimilisins sem fá þá heimsóknir úttektaraðila.

Kostnaðurinn hleypur á nokkur hundruð þúsundum árlega en að sögn Jórunnar hafa rannsóknir sýnt að spara megi allt að 20 prósent í rekstrinum með tímanum þar sem ítarleg yfirsýn yfir alla þætti starfseminnar, allt frá innkaupum og lagerstöðu til starfsmannastjórnunar verður til. Tryggð er sameiginlegri sýn á starfið hjá þeim sem þarna starfa og stjórna sem kemur í veg fyrir mistök, ágreining og of mikla starfsmannaveltu sem stórar þjónustueiningar þurfa oft að glíma við. Starfsánægja eykst og – það sem mestu skiptir – lífsgæði íbúanna.

ISO 9000 staðlarnir eru fyrir öll fyrirtæki óháð því hvaða starfsemi fer þar fram en staðlarnir eru ávallt merki um gæði í stjórnun og rekstri. ISO er útbreiddasti alþjóðastaðallinn fyrir rekstur fyrirtækja og stofnanna.