Steinunn Ólína með neglu: „Þið hafið ekki skúrað heima hjá ykkur svo árum skiptir!“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fjölmiðlakona, segir að allt í veröldinni sé samofið og verkfall Eflingar komi okkur öllum við. „Við erum öll Efling þó við þràumst við að halda öðru fram. Horfumst í augu við það,“ segir Steinunn í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi og vakið hefur talsverða athygli.

„Efling háir sína baráttu nú fyrir allt launafólk í landinu, alla sem á vinnumarkaði eru, en það er rétturinn til samningagerða,verkfallsrétturinn og rétturinn til veita stéttarfélagi umboð til að vinna að bættum kjörum. Til að setja þetta örstutt í annað samhengi má benda á að Úkraína háir nú baráttu fyrir lýðræði í allri Evrópu. Ekki bara fyrir Úkraínu.“

Steinunn Ólína segist furða sig á því að þegar fátækt fólk innan Eflingar sem starfar við hreingerningar fær þann mótbyr sem raun ber vitni, hafi ekki öll og sér í lagi konur með sín nú sjálfsögðu réttindi, slegið skjaldborg um eina lægst launuðu stétt landsins. Ræstingafólk. Þetta kemur okkur öllum alveg stórkostlega mikið við!“

Vill hún benda kynsystrum sínum sem kjósa að þegja eða halda að þetta komi þeim ekkert við á eftirfarandi:

„Að píkan nýtur nú loksins meiri verndar, skilnings og opinbers stuðnings en sjálft frelsið til að standa vörð um hagsmuni fólks á vinnumarkaði, svo ef gætum við litið af henni blessaðri um stundarkorn og opnað allavega annað augað um aðalatriði! Formæður okkar fóru ekki í frí, þótt það héti Kvennafrí árið 1975, þegar konur fylltu strætin. Þær unnu þvert á móti markvist að markmiðum sínum með það að leiðarljósi að samfélag er aðeins hægt að kalla samfélag ef láglaunafólk getur framfleitt sér. Og Eflingarfólk sem boðar nú verkfall hjá Íslandshótelum getur það ekki! Það lifir ekki af laununum sínum þrátt fyrir að stunda erfiðisvinnu!“

Skilaboð Steinunnar Ólínu eru skýr:

„Ef við látum þetta yfir okkur og aðra ganga erum við drasl. Þá erum við engu betri en það fólk sem græðir með áfergju á því að launapína aðra og þá er okkur sama þótt við þiggjum og framseljum þjónustu af fólki sem á ekki í sig og á. Og hvernig manneskjur erum við þá? Drasl. Ef við mótmælum ekki aðgerðum Samtaka Atvinnulífsins, Ríkissáttasemjara, í blússandi rúmbu við Ríkisstjórn Ísland þá erum við að segja að okkur sé alveg sama þótt farið sé illa með annað fólk og ekki bara það, við erum að afhjúpa grunnhyggni okkar þegar vi köstum áratuga verkalýðsbaráttu og löngu sjálfsögðum réttindum fyrir róða. Og það er það sem er að gerast, við ERUM með þögn og aðgerðarleysinúna að selja undan okkur áratugalanga baráttu formæðra okkar til að verja hagsmuni sína á vinnumarkaði.“

Skorar hún á Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, sem vinnur gott og athyglisvert starf að láta í sér heyra, fátæku skúringafólki til verndar.

„Ykkur munar ekkert um það! Verið nú dálítið stórar stelpur! Þið hafið ekki skúrað heima hjá ykkur svo árum skiptir! Skál! Kvenréttindafélag Íslands vil ég biðja að leggja til hliðar, örugglega verðug verkefni, eitt andartak og veita Sólveigu Önnu og fólki hennar stuðning í kjaradeilu við atvinnurekendur sína án tafar ellegar hætta að nudda sér utan í nafn langömmu minnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í eitt skipti fyrir öll! Sú gamla vill örugglega frekar hverfa í gleymsku og ryk en vera notuð sem barmnæla og efriskápatrappa í félagi kvenna sem styðja ekki með afgerandi hætti og látum, kjarabaráttu allra kvenna! Svei, bara!“

Færslu sína endar Steinunn Ólína á þessum kröftugu orðum:

„Raddleysingjar dagsins í dag, af öllum kynjum minna skuggalega á fínukonurnar 1975 sem vildu ekki undir nokkrum kringumstæðum kalla það verkfall þegar konur tóku frí. Raddleysingjar sem aldrei lyfta litla fingri fyrir fátækt fólk í verkalýðsfélögum og fljóta nú frekar í uppburðarleysi, spéhræðslu og brátt réttlausir að feigðarósi.

Hvað eruð þið að hugsa?

Hvað er að því að bregðast við harkalegum aðgerðum gegn fólki á vinnumarkaði af hörku? Það er bókstaflega ekkert að óttast og til alls að vinna. Ef við þegjum og klöppum með því valdinu, er hins vegar full ástæða til að óttast, því þá verðum við flest öll réttlausir öreigar og töluvert fyrr en okkur grunar. Því get ég lofað.“