Steindi Jr. með eina reglu: „Ég labba aldrei inn til mín í símanum“

Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., segist vera með eina reglu í fyrirrúmi til að skilja að einkalíf sitt og vinnu. „Ég er með þá reglu að ég labba aldrei inn til mín í símanum.“

Þetta sagði Steindi Jr. í útvarpsþættinum Fram og til baka með Felix Bergssyni. Fjallað er um viðtalið á vef RÚV. Steindi er einn af okkar allra bestu mönnum enda á hann einstaklega auðvelt með að koma fólki til að brosa. Steindi er búsettur ásamt fjölskyldu sinni í Mosfellsbæ en starfar að mestu í Reykjavík.

Í viðtalinu fór hann um víðan völl og lýsti því til dæmis að hann nýti tímann sem það tekur að keyra úr miðbænum og upp í Mosfellsbæ tl að klára síðustu símtöl dagsins. Labbar hann þar af leiðandi aldrei inn til sín í símanum heldur situr hann frekar áfram úti í bíl á meðan hann klárar vinnudaginn. Að því loknu labbar hann inn og getur því einbeitt sér að fjölskyldunni sinni.

„Það er ógeðslega góð regla fyrir þá sem eru mikið að svara skilaboðum og eru límdir við símann að gera þetta. Það er ekkert verra en að dóttir þín er að kalla á þig og þú ert með símann á öxlinni „Bíddu aðeins ástin mín, ég er aðeins að klára eitt símtal,” það er ekki gott. Ég held að þetta sé mjög góð regla,” sagði Steindi meðal annars.