Stefán Pálsson, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík, rifjar það upp á Facebook síðu sinni þegar hann var strákur í unglingavinnunni í kringum árið 1990. En þá voru bara strákar settir á sláttuvélarnar og sláttuorfin, þar sem víbringurinn var sagður hættulegur fyrir móðurlífið og því var stelpum ekki leyft að nota sláttuorf.
„Ég treysti því að þessi miklu læknisfræðilegu sannindi standi óhögguð,“ skrifar Stefán.
Þá svarar Facebook notandi: „Það kom reyndar í ljós að karlmenn eru miklu viðkvæmari fyrir titringi. Reyndar er titringur af orfum innan allra marka.“
Annar notandi spyr hvort þetta hafi verið í sömu vísindagrein og sagði að ef maður rúllar sér niður brekku fái maður garnaflækju.
Þá vísar einn í athugasemd á grein frá Vísindavefnum sem titluð er: „Er slæmt fyrir stelpur að slá með sláttuorfi?“
Í greininni er sagt að ekki sé unnt að svara því með afgerandi hátt og með fullri vissu hvort hættulegt sé fyrir stúlkur að vinna með tæki sem valda titringi um allan líkamann eins og sláttuorf.
„Ástæðan er sú að rannsóknir, sem gerðar hafa verið á tengslum titrings og heilsufarshættu, hafa yfirleitt verið gerðar á körlum,“ segir í greininni.
Í lok greinarinnar segir: „Í stuttu máli sagt er ekki hægt að fullyrða að sláttur með sláttuorfi sé með öllu hættulaus fyrir konur en áhættan er háð því hve lengi er staðið að slætti og hversu miklum titringi orfið veldur.“