Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, er ekki mikill aðdáandi Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR. Stefán Einar er sem kunnugt er fyrrverandi formaður VR en í pistli í viðskiptariti Morgunblaðsins í dag vandar hann Ragnari ekki kveðjurnar.
„Stjórn VR varð sér til skammar í júlí í fyrra þegar hún tók að skipta sér af ákvörðunarferli Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem tengdist fyrirhuguðu hlutafjárútboði Icelandair Group. Miðaði útboðið að því að bjarga félaginu frá lausafjárþurrð og um leið vernda innviði íslenskrar ferðaþjónustu og störf þúsunda Íslendinga, m.a. fjölda fólks sem lítur á VR sem stéttarfélag sitt.“
Stefán Einar rifjar upp að sjóðurinn hafi ekki tekið þátt vegna andstöðu þeirra fulltrúa í stjórn sjóðsins sem tilnefndir eru af VR. Þar með hafi sjóðurinn misst af góðu fjárfestingartækifæri.
„Hefði hann tekið þátt fyrir milljarð og selt í dag næmi ávöxtunin 64%. Stjórnarmennirnir reyndust dýrkeyptir einfeldningar. Leikstjórnandinn í þessum brandara var sem fyrr núverandi formaður VR,“ segir Stefán og bætir við að Fjármálaeftirlitið hafi leyft honum að komast upp með að reka helming stjórnar lífeyrissjóðsins.
Var það aðför að sjálfstæði hans og augljósasta dæmið um ömurlega skuggastjórnun á síðari árum. Fyrirbæri sem reynst hefur íslensku hagkerfi dýrkeypt á síðustu áratugum. Skýrasta birtingarmynd spillingar og umboðsvanda.“
Stefán Einar nefnir svo að „höfuðpaurinn sem svívst einskis og sér aldrei neitt misjafnt í eigin fari“ hafi svo reynt að eyðileggja hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar sem Stefán Einar fullyrðir að er eitt glæsilegasta fyrirtæki landsins. Ragnar hvatti almenning og sjóði í þeirra eigu til að taka ekki þátt í útboðinu eins og Hringbraut fjallaði um í síðustu viku.
„Hjá því fyrirtæki starfa m.a. einstaklingar sem greiða félagsgjöldin sín til VR en vonandi ekki mikið lengur. Láti Lífeyrissjóður verslunarmanna undir höfuð leggjast að tryggja sér aukna hlutdeild í íslenskum sjávarútvegi og þar með bæta áhættudreifingu sína, þá hljóta fleiri en félagsmenn VR á Austurlandi að hugsa sér til hreyfings. Þá er ekki lengur borgandi í hinn fornfræga sjóð sem lengst af stóð í lappirnar.“