Starfsfólk Íslandsbanka mun vinna heima að jafnaði einn dag í viku og er tilraunaverkefni hvað þetta varðar þegar hafið. Bankinn stefnir að því að innleiða þetta fyrirkomulag hjá öllum sviðum ef tilraunaverkefni gengur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Þar segir að nýlega hafi verið gerð könnun meðal starfsfólks eftir að meirihluti þess hafði unnið heima vegna COVID-19.
„Niðurstöðurnar sýna fram á mikinn áhuga starfsfólks að halda áfram að vinna heima hluta úr viku, félagsleg tengsl hafa haldist ágæt og afkastageta aukist í mörgum tilvikum. Fyrirkomulagið mun einnig draga úr kolefnisspori bankans en ferðir starfsfólks til og frá vinnu vega hvað þyngst í kolefnismælingum undanfarinna ára. Þá eru þessar aðgerðir einnig taldar hafa jákvæð rekstraráhrif á bankann,“ segir í tilkynningunni.
Þá hefur bankinn einnig kynnt fyrir starfsfólki nýjar áherslur til að hvetja til umhverfisvænni samgöngumáta. Starfsfólk hefur nú aukin tækifæri á að nýta sér rafbílaflota bankans auk fjölmargra rafhlaupahjóla sem bankinn hefur fjárfest í auk annarra grænna úrræða.