Sólveig Anna hló yfir kvöldfréttunum í gærkvöldi

„Mér finnst voða gaman að grína og hlæja, með öðrum en líka bara með sjálfri mér og köttunum,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

„Nú er ég til dæmis ein (með köttum) að flissa ánægð yfir þessum brandara hjá RÚV:

Kjaradeila Eflingar! Það er bara enginn sem skilur afhverju þessi Efling er alltaf að deila. Og við hverja er hún eiginlega að deila? Enginn veit það!,“ sagði Sólveig Anna sem deildi skjáskoti af vef RÚV þar sem stendur stórum stöfum: Kjaradeila Eflingar.

Óhætt er að segja að kjaradeila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins sé í hnút en í gær var greint frá því að SA ætlaði að stefna Eflingu fyrir Félagsdóm eftir að úrslit atkvæðagreiðslu um verkfall á Íslandshótelum urðu ljós.

Sólveig Anna var í skáldaham í gærkvöldi og samdi af þessu tilefni stutta vísu sem má sjá hér að neðan:

„Oft er sagt: „Sjaldan veldur einn þá tveir deila“ en það þýðir ekkert að segja svoleiðis um Eflingu, því að:

Alltaf veldur Efling ein

öllum deilumálum

Þvermóðskan er þjóðarmein

Brennum hana á bálum

(Höfundur Litli Kisi)"