Sólveig Anna hjólar í Icelandair: „Skamm, óþekka verkakona“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er allt annað en sátt við viðbrögð Icelandair eftir að fjallað var um mál Ólafar Helgu Adolfsdóttur.

Ólöfu, trúnaðarmanni í hlaðdeild Icelandair á Reykjavíkurflugvelli og einu fastráðnu hlaðkonu félagsins á flugvellinum, var sagt upp störfum í ágúst síðastliðnum. Á sama tíma var hún í viðræðum við félagið um réttindamál starfsfólks. Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um málið síðustu daga og hefur stéttarfélagið Efling verið Ólöfu innan handar.

Icelandair brást við fréttaflutningnum í gær með því að segja að félagið harmaði að mál hennar hefði ratað í fjölmiðla.

Sólveig Anna er ósátt við viðbrögð Icelandair í málinu og segir í færslu á Facebook-síðu sinni:

„Með þessu reynir fyrirtækið að draga upp þá mynd og minna fólk á það sem öll eiga að vera búin að læra fyrir löngu; Efling er vond og leiðinleg og kann ekki að leika fallega. Ólíkt hinum göfugu manneskjum sem stýra Icelandair og SA. Þau skilja að viðkvæmt mál eins og ólögleg uppsögn á trúnaðarmanni á bara alls ekkert erindi í fjölmiðla og eiginlega bara siðlaust að vera að ónáða heiðvirða borgara með svona samskiptum þeirra sem völdin hafa og þeirra sem eiga að bara að gera það sem þeim er sagt.“

Sólveig rekur svo það sem hún segir vera staðreyndir málsins. Þannig hafi Ólöfu verið sagt upp meðan hún var í viðræðum við Icelandair fyrir hönd hlaðmanna um réttindamál og vinnuaðstæður.

„Hún hafði verið trúnaðarmaður frá 2018 og naut trausts samstarfsfélaga. Hún er líka öryggistrúnaðarmaður og Icelandair sjálft tilkynnti Vinnueftirlitinu um það í febrúar 2020. Yfirmenn hjá Icelandair bára Ólöfu sökum á vinnustaðafundi, sögðu hana hafa gerst seka um alvarlegan trúnaðarbrest. Ólög var ekki á þessum fundi og gat því ekki varið sig. Ekkert hefur komið fram hjá Icelandair sem staðfestir trúnaðarbrest, enda skiptu yfirmenn svo um skoðun og fóru að tala um að samskipti hefðu mátt vera betri, að Ólöf væri stundum „hvöss í tali“.

Sólveig bendir svo á að viðtal í Fréttablaðinu í dag við Gyðu Margréti Pétursdóttur, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, sem segir að mál Ólafar tengist því að konur hafi minna rými til að láta óánægju í ljós.

Sólveig segir að fulltrúar Eflingar hafi ítrekað haft samband við Icelandair eftir að Ólöfu var sagt upp. Ef uppsögnin yrði dregin til baka yrðu engir eftirmálar af hálfu Ólafar eða Eflingar.

„Ekki að ræða það, var svar yfirmanna hjá Icelandair. Og þessvegna er Efling að „reka“ hið „viðkvæma mál“ í fjölmiðlum, eins og það heitir hjá Icelandair. Vegna þess að allar óskir um sanngirni og skynsemi voru ekki virtar viðlits. Og nú geta stjórarnir bara ekki trúað þeirri ósvífni í verkakonunni að tala hátt og snjallt um það misrétti sem hún varð fyrir. Skamm, óþekka verkakona fyrir að opinbera andstyggilegheitin í Icelandair. Hvernig gastu haldið að öll hin innblásnu orð um að konur eigi að taka fullan og jafnan þátt ættu við um þig? Og það á kostnað fyrirtækis sem telur sig hafa fullt leyfi til að skreyta sig með stolnum fjöðrum kvenfrelsisbaráttunnar?“