Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýnir RÚV harðlega fyrir að fjalla miklu meira um BHM, og gefa félaginu meira pláss en Eflingu. Hún bendir á að Efling sé talsvert stærra félag, með tíuþúsund fleiri meðlimi, en samt finnst henni RÚV láta eins og fregnir af BHM séu merkilegri.
Í gær var Friðrik Jónsson, formaður BHM, í viðtali í Kastljósi að ræða kröfugerð síns félags. „Eftir að við birtum kröfugerðina hef ég fengið eitt símtal frá RÚV. Þá var ég spurð um það hvenær samninganefndin ætlaði að birta “fullburða” kröfugerð. Áhuginn var ekki tilkominn vegna málflutnings okkar eða þess sem að kröfugerðin innihélt, heldur vegna þess að Halldór Benjamín framkvæmdarstjóri SA hélt því fram opinberlega að Efling væri í raun ekki búin að vinna „heimavinnuna“ sína og kröfugerðin okkar væri ekkert tilbúin. Þetta gerði hann þrátt fyrir að ég hefði fyrir hönd samninganefndar Eflingar sent kröfugerðina á Samtök atvinnulífsins og birt hana opinberlega, m.a. sent fréttatilkynningu á alla fjölmiðla. Ég svaraði fréttamanni RÚV þegar að hún hringdi í mig og útskýrði skilmerkilega alla málavöxtu; kröfugerð okkar væri sannarlega fullburða og að ekkert væri til í fullyrðingum um að svo væri ekki. Eftir því sem að ég best veit birtist viðtalið þar sem að ég útskýrði þetta aldrei.“
Þetta skrifar Sólveig sem segir að svo virðist sem BHM hafi fengið miklu meiri áhuga. „Er það svo að kröfugerð verka og láglaunafólks er metin of lágkúruleg, of ómerkileg, til að eiga skilið pláss hjá RÚV?“ spyr Sólveig á Facebook-síðu sinni.
„Ég ætla ekki að svara þessari spurningu. En ég get sagt frá því ef einhver spyr mig, að RÚV hefur sýnt því sem næst 0% áhuga á kröfugerð Eflingar, lang-stærsta félags verka og láglaunafólks á landinu öllu. Þrátt fyrir að barátta félagsins síðustu ár hafi skilað miklum og raunverulegum árangri, þrátt fyrir að vinna félagsfólks Eflingar knýi áfram hagvöxtinn á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að félagsfólk Eflingar sé augljóslega ómissandi fólk (hér væru t.d allir leikskólar lokaðir ef að Eflingar-félagar mættu ekki til vinnu), þrátt fyrir að efnahagsleg réttlætisbarátta Eflingar-fólks sé augljóslega einstaklega mikilvæg, eða ætti í það minnsta að vera það í samfélagi sem vill kenna sig við jöfnuð og velferð.“ bætir hún við.
„Sem Eflingarkonu finnst mér fáránlegt að RÚV hafi engan áhuga á kröfugerð okkar og baráttu. Mér finnst fáránlegt að hægt sé að láta eins og við séum ekki til. En þrátt fyrir að þetta sé auðvitað til háborinnar skammar er staðreyndin þó sú að á endanum skiptir það okkur í samninganefnd Eflingar engu máli,“ segir Sólveig í lok færslu sinnar.