Sólveig Eiríksdóttir og eiginmaður hennar Elías Guðmundsson hafa nú selt 30 prósenta hlut sinn í Gló til hjónanna Birgis Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur.
Árið 2014 keyptu Birgir og Eygló helmingshlut í veitingastaðnum í gegnum fjárfestingafélagið Eyju sem eignaðist samhliða útrásinni árið 2017 meirihluta í staðnum. Elías segir þau Sólveigu hafa samið um það að opna ekki nýjan veitingastað í bráð enda standi hugur þeirra ekki til þess.
Sólveig mun þó enn starfa fyrir veitingastaðinn sem ráðgjafi til ársins 2021 þar sem hún mun sjá til þess að viðhalda gæðum, sinna nýsköpun ásamt fleiri verkefnum.
„Við höfum verið á hlaupum lengi og kominn tími til að slaka á. Félagið er komið i ágætis horf og tækifæri er fyrir nýja aðila til að taka fyrirtækið á næsta stig,“ segir Elías í samtali við Markaðinn.
Samkvæmt viðtali Elíasar við Morgunblaðið hefur rekstur fyrirtækisins skilað hagnaði síðustu tólf mánuði en tap Gló árið 2018 fór úr 26 milljónum í 82 milljónir og var eigið fé þeirra neikvætt um fimm milljónir króna við árslok síðasta árs.