Skatturinn rukkaði Kristin um 114 krónur – Sjáðu bréfið sem hann sendi til baka

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, fékk ábendingu um að hann ætti óuppgerða skuld við skattinn upp á 114 krónur. Kristinn greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Kristinn birti svo býsna skemmtilega orðaðan tölvupóst sem hann sendi netfanginu [email protected] þar sem hann segist hafa brugðið á það ráð að fá „svokallaða mannveru“ til að koma greiðslunni til skattsins, meðal annars í ljósi þess að bankar taka 120 krónur fyrir að millifæra greiðslur.

„Greiðslan er í formi svokallaðra mynta sem voru, ótrúlegt en satt, býsna algengar sem greiðslumiðlun áður en stafræn snilli okkar varð allsráðandi.“

Tölvupóst Kristins má sjá hér að neðan:

Tölvupóstur:

til: [email protected]

Kæri 85002

Ég þakka þér ábendinguna um að óuppgerð sé skattskuld upp á kr. 114,- vegna tilvísunar 2021012216350090115. Þar sem bankar taka (eðlilega) kr. 120,- fyrir að millifæra greiðslur brá ég á það ráð að fá svokallaða mannveru (sem tengist minni kennitölu) til þess að nota ferð og koma þessari greiðslu til ykkar í umslagi.

Greiðslan er í formi svokallaðra mynta sem voru, ótrúlegt en satt, býsna algengar sem greiðslumiðlun áður en stafræn snilli okkar varð allsráðandi.

Þessar myntir teljast víst enn lögaurar í landinu.

Þið ferlið þetta svo eftir ykkar hentugleik og sendið mér vinsamlegast greiðslukvittun og staðfestingu um fullnaðaruppgjör. Hún má mín vegna vera stafræn.

Með bestu kveðju,

2506625219