Sjáðu muninn: Svona fór Annað að því að léttast – 90 dagar á milli mynda

Anna Kristjánsdóttir, íbúi á Tenerife, birtir tvær samskonar myndir á Facebook-síðu sinni í dag, teknar með 90 daga millibili. Eins og sést hefur Anna lést töluvert enda verið í hálfgerðu átaki, eða lífstílsbreytingu, það sem af er þessu ári.

„Eins og sjá má af myndunum tveimur eru þær af sama umhverfi, sömu fötum og sömu manneskju, en með 90 daga millibili. Í sjálfu sér er ekki neitt meira um þetta að segja. Á annarri myndinni er ég feit og falleg, en á hinni enn feitari og fallegri,“ segir Anna í morgun.

Anna fer svo yfir það hvernig hún náði þessum magnaða árangri, en á þessu ári hefur hún lést um 16 kíló – geri aðrir betur. Anna segir að það hafi verið á þrettándanum sem hún hafi ákveðið að taka sig á. Þá var hún komin í 99,6 kíló.

„Þann 10. janúar komst ég með erfiðismunum upp á Litlu-Klif og þóttist hafa unnið heiminn og önnur myndin er til staðfestingar á dugnaðinum, en betur má ef duga skal. Síðan í janúar er ég búin að fara tíu sinnum upp á Stóru-Klif og nítján sinnum að auki á Litlu-Klif og margoft á Litlafell og ganga sem svarar til leiðarinnar norður fyrir land frá Reykjavík til Hornafjarðar, en eins og sjá má er enn nokkur kúla eftir, en ég er heldur ekki komin alla leiðina til baka til Reykjavíkur, en stefni þangað hröðum skrefum og ætlunin er að vera komin þangað í júní ef sóttvarnaryfirvöld leyfa.“

Anna segist borða nautasteik eða lambasteik minnst einu sinni í viku, kjúkling kannski tvisvar í viku, fisk álíka oft og stundum meira að segja unnar kjötvörur, en þó í hófi.

„Það er ekki margt sem ég neita mér um, þá helst brauð og bjór, en kartöflur og hrísgrjón læðast stundum á diskinn en í mjög litlum mæli. Á 90 dögum eru þannig farin nærri sextán kíló og er ég þó langt í frá að deyja úr hungri. Ég er ekki til ráðleggingar um það hvernig beri að fara að, en litla eldhúsvigtin, MyFitnessPal og líkamsrækt a la Helena eru lykillinn að þessu öllu saman.“

Anna segir að von sé á nýrri mynd í byrjun júnímánaðar og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. Anna endar færsluna á þessum orðum, eins og henni einni er lagið: „Má ekki vera að þessu bulli lengur, Stóra-Klif bíður áður en verður of heitt í veðri.“

Dagur 2.242 – Tvær myndir. Eins og sjá má af myndunum tveimur eru þær af sama umhverfi, sömu fötum og sömu manneskju,...

Posted by Anna Kristjánsdóttir on Þriðjudagur, 13. apríl 2021