Sjáðu hvað kostar að fljúga til Kaupmannahafnar með Play

Eins og greint hefur verið frá hóf flugfélagið Play sölu á miðum í morgun, en fyrsta flug félagsins verður til London þann 24. júní næstkomandi.

Fyrstu sjö áfangastaðir félagsins eru Alicante, Barcelona, Berlín, Kaupmannahöfn, London, París og Tenerife. Hringbraut skoðaði að gamni verð á flugi til Kaupmannahafnar í sumar, en í morgun var verð á flugi til London skoðað sérstaklega.

Hægt er að kaupa sér ferð til Kaupmannahafnar til dæmis þann 22. júlí næstkomandi og kostar ferðin út 11.454 krónur. Ferðin heim viku síðar, þann 29. júlí, kostar 10.459 krónur. Greiða þarf sérstaklega fyrir farangur, bæði handfarangur og innritaðan farangur. Þannig kostar ein taska í handfarangri 3.100 krónur og ein innrituð taska kostar 3.900 krónur.

Miðað við að ferðast sé með eina tösku í handfarangri og aðra innritaða kostar ferðin því 28.913 krónur.

Annað flug til Kaupmannahafnar sem valið var af handahófi, þann 16. ágúst næstkomandi, kostar 10.458 krónur og ferðin heim til Íslands þann 20. ágúst kostar 9.463 krónur. Samanlagður kostnaður miðað við eina tösku í handfarangri og aðra innritaða er því 26.921 króna. Flug í september og október er á mjög sambærilegu verði og virðist yfirleitt vera hægt að komast fram og til baka fyrir innan við 30 þúsund krónur með farangri.