Fjölmiðlakonan Sigríður Arnardóttir, betur þekkt sem Sirrý, segir frá ótrúlegu atviki sem átti sér stað í gær þegar hún og eiginmaður hennar, Kristján Franklín Magnús, voru á leið frá Leifsstöð.
Sirrý segir að fljótlega eftir að þau óku frá flugstöðinni hafi umferðin verið stopp í dágóða stund.
„Fyrir framan okkur var bílaleigubíll (Duster) stopp. Við biðum dágóða stund en ekkert hreyfðist og löng röð hafði myndast fyrir aftan okkur. Maðurinn minn fór út og spurði ökumanninn hvort hann gæti aðstoðað, hvað væri að?,“ segir Sirrý í færslu á Facebook-síðu sinni og tekur fram að engin viðvörunarljós hafi verið í gangi – einungis kyrrstæður bíll á hraðbraut.
„Bílaleigubíllinn var fullur af, að því er virtist, kínverskum ferðamönnum. Ökumaðurinn kunni ekki að koma bílnum í gang aftur. Hann kunni ekki á gírana, ekki á handbremsuna, ekki á stefnuljós eða rúðuþurrku.“
Sirrý segir að Kristján hafi bent honum á að hann væri með bílinn í handbremsu, hann þyrfti að starta bílnum, hann væri í þriðja gír og það gengi ekki.
„Og svo kenndi hann honum á að koma bílnum í fyrsta gír. Eftir það ók bílstjórinn af stað í fyrsta gír og löng bílalest lullaði á eftir honum, þokaðist varla áfram. Það var ekki hægt að taka fram úr fyrr en löngu síðar. Þá var ljóst að bílstjórinn kunni ekki að skipta um gír, ekki að aka út í kant og ekki að aka í hringtorgi.“
Sirrý veltir fyrir sér hvað verður um þessa ferðamenn sem eru væntanlega að fara að skoða landið í janúarmánuði. „Hvernig skyldi bílstjóranum ganga á einbreiðum brúm, niður Kambana, í hálku á mjóum fjallvegum,“ segir hún og spyr að lokum spurningar sem eflaust fleiri munu spyrja sig:
„Þarf ekki að sýna fram á að kunna að aka bíl til að taka bíl á leigu á Íslandi?“