Sigurður vaknaði upp við martröð á heimili sínu: „Þeir voru aggresívir og dónalegir“ – Hyggst leita réttar síns

Sigurður Kristján Grímlaugsson, íbúi í Kórahverfinu í Kópavogi, segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við lögreglu aðfaranótt síðastliðins fimmtudags.

Sigurður vaknaði upp við vondan draum ásamt konu sinni þegar sérsveitin fór inn á heimili hans um miðja nótt vegna gruns um að þar héldi til maður sem grunaður er um aðild að skotárás í Grafarholti í síðustu viku.

Vaknaði Sigurður við það að þrír menn, gráir fyrir járnum, stóðu yfir honum en í íbúðinni sváfu einnig eiginkona hans og tveir barnungir synir þeirra, 18 mánaða og 3 ára.

Fréttablaðið fjallar um málið og segir Sigurður að einn lögreglumaðurinn hafi lýst vasaljósi í augu sín, annar hafi haldið á skyldi og sá þriðji hafi miðað byssu á höfuð hans. Sigurður hyggst leita réttar síns vegna málsins.

Sigurður segir konu sína hafa vaknað um hálf sex um morguninn við símhringingu frá lögreglunni. Hún var þá beðin um að gera leið sérsveitarmanna greiðari við að komast í húsið, sem hún gerði og opnaði fyrir þeim í íbúð sína.

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að sérsveitarmennirnir eigi þá að hafa spurt hvort ákveðinn maður byggi í húsinu, sem síðan var handtekinn vegna málsins, en hún kannaðist ekki við það. Umræddur maður átti að sögn lögreglu lögheimili í íbúðinni.

Þá hafi lögreglan spurt hverjir væru í íbúðinni og hún upplýst hana um að maður sinn og tvö börn væru sofandi í íbúðinni. Þá segist hún hafa beðið lögregluna um að hafa vart um sig vegna barnanna. Í kjölfarið hafi mennirnir farið í svefnherbergi Sigurðar og vakið hann.

„Ég vakna með þrjá menn upp við rúmið mitt. Einn var með vasaljós, annar með skjöld og sá þriðji með byssu sem hann miðaði á höfuðið á mér,“ segir Sigurður sem eðli málsins samkvæmt er ekki sáttur með framkomu lögreglu. „Þeir voru mjög ógnandi í framkomu sinni og tali. Þeir voru aggresívir og dónalegir.“

Ítarlega er fjallað um málið á vef Fréttablaðsins.