„Í stað þess að nota blekið í að tala um hvað virkar ekki langar okkur að leggja fram eina tillögu sem er raunhæf, réttlát og gætir jafnræðis fyrir öll fyrirtæki sem lúta þurfa takmörkunum í sóttvarnaaðgerðum þjóðarinnar,“ segir þeir Sigmar Vilhjálmsson og Óli Valur Steindórsson, eigendur Hlöllabáta, Barion og Minigarðsins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
177 starfsmenn eru á launaskrá Sigmars og Óla Vals en eins og önnur lítil og meðalstór fyrirtæki hafa fyrirtæki þeirra ekki farið varhluta af aðgerðum til að hindra útbreiðslu COVID-19.
„Þær tillögur sem lagðar hafa verið fram eru bitlausar og virka ekki. Þær voru eflaust lagðar fram í von um virkni, en svo er ekki. Því miður. Ráðamenn þurfa, líkt og atvinnulífið, að vera tilbúnir að meta stöðuna hratt og vera tilbúnir að bakka með fyrri tillögur og koma með nýjar,“ segir þeir í greininni áður en þeir útlista tillöguna.
„Staðgreiðsluskatti og virðisaukaskatti verður slegið á frest (lánaður) af ríkinu, vaxtalaust á þeim tímabilum sem takmarkanir standa yfir. Fyrirtæki, sem gert er að takmarka starfsemi sína og hefur bein áhrif á þeirra áætlanir, veltu og greiðslugetu, fá með þessu vaxtalausan greiðslufrest frá ríkinu til að halda þeim við efnið. Greiðslufresturinn er eðlilega tengdur þeirri veltu sem þó er enn til staðar og með því gætir þessi tillaga jafnræðis.“
Telja Sigmar og Óli Valur að tillagan veiti fyrirtækjum tækifæri á því að standa undir skuldbindingum sínum, sem minnkar neikvæð margfeldisáhrif á atvinnulífið.
„Tillagan er ekki styrkur, heldur greiðslufrestur (lán). Ríkið mun fá sitt á endanum þegar úr Covid er komið, þannig að þetta er ekki styrkur eða peningur út um gluggann. Þetta eru fjármunir sem skila sér bara síðar. Sem er réttlátt. Greiðslufresturinn er vaxtalaus þar sem ríkið hefur gríðarlegan hag af því að fyrirtækin haldi áfram rekstri. Ekki er hægt að svindla á þessu kerfi, enda upphæð greiðslufrestsins alltaf miðuð við þá veltu sem hefur verið í fyrirtækinu. Uppgreiðslu á þessum greiðslufresti er síðan stillt upp með þeim hætti að fyrirtæki eigi auðvelt með að brúa endurgreiðsluna þegar allt er gengið yfir.“
Í greininni segja þeir að horfa mætti til tólf mánaða en það fari þó allt eftir lengd faraldursins.
„Takmarkanir sem settar væru á fyrirtæki þessu tengt væru bundnar við arðgreiðslur, hlutfall af hagnaði o.fl. Með þessari tillögu er verið að veita öllum lífvænlegum fyrirtækjum sem hafa þurft að þola miklar takmarkanir á sinni tekjuöflun ákveðið svigrúm og andrými til að standa við skuldbindingar sínar. Þetta mun spara gríðarlega fjármuni hjá hinu opinbera til skamms tíma og hvað þá lengri tíma.“
Sigmar og Óli Valur segjast ekki geta talað fyrir hönd allra lítilla og millistórra fyrirtækja, enda eigi þau fyrirtæki ekki sín eigin hagsmunasamtök, en öruggt sé að öll lítil og millistór fyrirtæki sem hafa orðið fyrir takmörkunum á rekstri vegna sóttvarnaaðgerða muni fagna tillögunni.