Sif Sigmarsdóttir, pistlahöfundur Fréttablaðsins, gagnrýnir Rauða krossinn harðlega í pistli sínum í Fréttablaðinu um helgina.
Átak Samtaka áhugafólks um spilafíkn, SÁS, hefur vakið mikla athygli og hefur Hringbraut til að mynda fjallað ítarlega um átak samtakanna, Lokum.is
Í grein sinni bendir hún á að leikjafræði sé grein innan stærðfræði, hagfræði og félagsvísinda þar sem líkön eru notuð til að spá fyrir um atburðarás í hvers konar keppni: skák, knattspyrnu, stjórnmálum eða stríði.
„Hugtakið núllsummuleikur (e. „zero-sum game“) lýsir aðstæðum þar sem ávinningur eins er sjálfkrafa tap annars. Baki ég til dæmis súkkulaðiköku handa fjölskyldunni í dag er afraksturinn núllsummuleikur. Þegar ég sker úr kökunni sneið, set hana á disk og afhendi hann horugum grislingi sem arkar inn úr snjónum er einni sneið minna af köku eftir handa mér. Horugi grislingurinn hefur hins vegar grætt því sem nemur tapi mínu.“
„Súkkulaðikaka skapar hamingju. Hamingja er hins vegar ekki eins og súkkulaðikaka. Hingað til hefur hamingja ekki verið talin núllsummuleikur. Þótt ríkir verði gjarnan ríkir á kostnað einhvers á það ekki við um þá sem verða hamingjuríkir. Því hamingja er ótakmörkuð auðlind. Hamingja verður ekki tekin úr vasa eins og færð í vasa annars. Eða svo kveður kenningin.“
Sif bendir á að mikil hamingja hafi ríkt í upphafi síðustu viku þegar slakað var á sóttvarnareglum hér á landi. Krár og skemmtistaðir hafi opnað dyr sínar og líkamsræktarstöðvar búningsklefana.
„Venju samkvæmt voru einhverjir óánægðir með að hugðarefni þeirra hefði ekki hlotið náð fyrir augum þríeykisins. Aðeins eitt dæmi var hins vegar um að óhamingja ríkti með opnun einhvers sem hafði áður verið lokað.“
Sif nefnir svo að fyrir tæpu ári hafi spilakassasölum verið lokað vegna smithættu af völdum COVID-19. Síðan hafi borist fréttir af betri líðan þeirra sem glíma við spilafíkn.
„Rannsóknir benda til að rúmlega 2000 Íslendingar glími við alvarlega spilafíkn og allt að þrefalt fleiri glími við fíknina í einhverri mynd. Talið er að spilakassar séu þrisvar til fjórum sinnum meira ávanabindandi en aðrar tegundir fjárhættuspila.“
Sif bendir svo á könnun Gallup þess efnis að 86% Íslendinga vilji ekki að spilakassar verði opnaðir aftur. Þá hafi Samtök áhugafólks um spilafíkn kallað eftir því að spilakassasölum yrði lokað til frambúðar.
„Ákallið var hunsað. Í vikunni opnuðu spilasalir þvert á óskir margra þeirra sem þá sækja og fjölskyldna þeirra. En ef gestir spilakassasala vilja ekki að þeir opni, hverjir vilja það þá?“
Sif nefnir að Íslendingar hafi tapað 3,9 milljörðum króna í spilakössum árið 2019.
„Tvö fyrirtæki reka spilakassa hér á landi. Annars vegar Happdrætti Háskóla Íslands, og hins vegar Íslandsspil sem er í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar og SÁÁ. Í lok síðasta árs tilkynnti SÁÁ að samtökin hygðust hætta þátttöku í rekstri spilakassa. Af því tilefni var framkvæmdastjóri Rauða krossins, Kristín Hjálmtýsdóttir, spurð hvort rekstur spilakassa samrýmdist hugsjón samtakanna. „Já,“ svaraði Kristín og sagði spilakassana hafa verið mikilvæga fjáröflun síðastliðin fimmtíu ár.“
Sif segir að samkvæmt heimasíðu Rauða krossins sé Rauði krossinn „mannúðarhreyfing“ sem hefur það markmið að „vernda líf og heilsu berskjaldaðra hópa“. Ekki virðist þó öll góðverkin jafngóð.
„Upp á sitt einsdæmi – og alveg óvart – hefur Rauða krossinum tekist að sýna fram á að hamingja getur víst verið núllsummuleikur. Þau góðverk sem Rauði kross Íslands fjármagnar með peningum úr spilakössum auka ekki heildarhamingju í veröldinni, þau draga ekki úr heildareymd mannkyns, þau minnka ekki neyð berskjaldaðra hópa – þau færa hana til. Milljón af mannúð á einum stað á sér samsvarandi milljón króna holu af harmleik annars staðar,“ segir Sif sem endar pistilinn á þessum orðum:
„Rauði krossinn gerir sér að féþúfu „berskjaldaðan hóp“ sem hreyfingin ætti heldur að sýna mannúð og gera að skjólstæðingi sínum. Hvað segðum við ef dýraverndunarsamtökin PETA tækju að selja mulin nashyrningahorn í fjáröflunarskyni? Slík „núllsummugæska“ teldist varla mikil gæska.“