„Þetta er mjög vandað netsvindl og við vitum að fólk er því miður að falla fyrir þessu,“ segir Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og mrakaðssviðs Póstsins, í tilkynningu sem send var fjölmiðlum í morgun.
Pósturinn ítrekar fyrri viðvaranir um að óprúttnir aðilar eru að senda tölvupósta í nafni Póstsins í þeim tilgangi að komast yfir kortaupplýsingar fólks. Það ætti undir engum kringumstæðum að smella á hlekki sem fylgja þessum póstum né gefa upp kortaupplýsingar eða aðrar persónulegar upplýsingar.
Í tilkynningunni segir að það sé gríðarlega mikilvægt að allir fullvissi sig um að þeir eigi von á sendingum með Póstinum en sendingarnúmer eru 13 stafir, þar af tveir bókstafir fremst og tveir aftast með talnarunu á milli. Pósturinn hvetur alla að fara á heimasíðu fyrirtækisins, posturinn.is og leita eftir sendingum undir „Finna sendingu“ í öllum tilfellum.
Þá vill fyrirtækið einnig benda á síðu sem sett var upp á posturinn.is sem fjallar um netsvindl:
Sesselía segir að um mjög vandað netsvindl sé að ræða og því miður hafi fólk fallið fyrir þessu.
„Við viljum því ítreka að þessir póstar koma ekki frá okkur en það er mikilvægt að átta sig á því að við krefjumst aldrei greiðslu fyrir sendingar í gegnum opna síðu. Allar sendingar sem koma með okkur er hægt að finna á heimasíðunni okkar og ef viðskiptavinir greiða rafrænt fyrir sendingar þá þurfa þeir alltaf að skrá sig inn í á örugga síðu á minnpostur.is.“
