Sesselía með mikil­væg skila­boð: „Fólk er því miður að falla fyrir þessu“

„Þetta er mjög vandað nets­vindl og við vitum að fólk er því miður að falla fyrir þessu,“ segir Sesselía Birgis­dóttir, fram­kvæmda­stjóri þjónustu- og mrakaðs­sviðs Póstsins, í til­kynningu sem send var fjöl­miðlum í morgun.

Pósturinn í­trekar fyrri við­varanir um að ó­prúttnir aðilar eru að senda tölvu­pósta í nafni Póstsins í þeim til­gangi að komast yfir kor­ta­upp­lýsingar fólks. Það ætti undir engum kring­um­stæðum að smella á hlekki sem fylgja þessum póstum né gefa upp kor­ta­upp­lýsingar eða aðrar per­sónu­legar upp­lýsingar.

Í til­kynningunni segir að það sé gríðar­lega mikil­vægt að allir full­vissi sig um að þeir eigi von á sendingum með Póstinum en sendingar­númer eru 13 stafir, þar af tveir bók­stafir fremst og tveir aftast með talnarunu á milli. Pósturinn hvetur alla að fara á heima­síðu fyrir­tækisins, posturinn.is og leita eftir sendingum undir „Finna sendingu“ í öllum til­fellum.

Þá vill fyrir­tækið einnig benda á síðu sem sett var upp á posturinn.is sem fjallar um nets­vindl:

Sesselía segir að um mjög vandað nets­vindl sé að ræða og því miður hafi fólk fallið fyrir þessu.

„Við viljum því í­treka að þessir póstar koma ekki frá okkur en það er mikil­vægt að átta sig á því að við krefjumst aldrei greiðslu fyrir sendingar í gegnum opna síðu. Allar sendingar sem koma með okkur er hægt að finna á heima­síðunni okkar og ef við­skipta­vinir greiða raf­rænt fyrir sendingar þá þurfa þeir alltaf að skrá sig inn í á örugga síðu á minn­postur.is.“