Segir hlutskipti Katrínar orðið dapurlegt: „Bros hennar sjálfrar farið að líkjast stirðri grímu“

Nú fer fram landsfundur Vinstri grænna og því er flokkurinn og forysta hans í augum margra. Að tilefni af því skrifaði Illugi Jökulsson færslu um Katrínu Jakobsdóttur, formann flokksins og forsætisráðherra, á Facebook.

„Hlutskipti hennar er vissulega ansi dapurlegt. Hún ákvað að mynda stjórn stöðugleika og styrks með Sjálfstæðisflokknum og hélt að hennar eigin gáfur og persónustyrkur myndu duga til að komast yfir alla þá pytti sem flokkar, sem starfa með Sjálfstæðisflokknum, falla vanalega í.“ segir Illugi.

Hann vill meina að hlutskipti Katrínar sé orðið ansi dapurlegt:

„En hér er hún, tæpum sex árum síðar, niðurlægð af Jóni Gunnarssyni af öllum mönnum, fylgið komið í ruslflokk, stöðugleikinn reynist vera eingöngu fyrir þá ríku, og bros hennar sjálfrar farið að líkjast stirðri grímu. Og hún, sem boðaði nýja tíma, grípur orðið dauðahaldi í hvern einasta lúna frasa örþreytts pólitíkuss á flótta. Já, þetta er dapurlegt. En þó er ekki hægt að vorkenna henni, eða VG yfirleitt. Þau vissu alveg hvað þau voru að gera og gerðu það vísvitandi.“ segir hann og bætir við:

„Verði þeim að góðu. Ég vona að þetta dapurlega hlutskipti verði lokalexía vinstri flokka um að það er ekki til neins að starfa með Sjálfstæðisflokknum. Nema fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“

Á meðal þeirra sem svara Illuga er blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson. Hann segir:

„Sjaldan eða aldrei hefur maður upplifað annað eins eyðslubrjálæði af reikningi sinnar pólitísku inneignar, reikningur sem var með þeim feitustu sem um getur. Ég veit ekki hvort feitari bankabækur búranna í flokkseigendafélaginu vega þar á móti, sennilega einhver huggun harmi gegn.“

Hann endar svar sitt á þessum orðum, þar sem hann leyfir sér að vera ósammála Illuga.

„Jú, Illugi, ég fæ ekki varist því að vorkenna Katrínu — þetta er að einhverju leyti mannlegur harmleikur.“