Sarah fór til Íslands: „Það athugar enginn með mann“

Sarah Harman, fréttakona NBC í Bandaríkjunum, heimsótti Ísland ekki alls fyrir löngu og var innslagið sýnt á NBC-sjónvarpsstöðinni í gær.

Þar var meðal annars rætt við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um baráttu Íslands gegn útbreiðslu COVID-19.

„Það athugar enginn með mann. Íslendingar treysta á þig sem ferðamann að vera í fimm daga sóttkví,“ segir Sarah meðal annars í innslaginu að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins í dag.

Haft var eftir Katrínu að 98% þeirra sem ættu að mæta í seinni skimun gerðu það. Sarah virðist hafa verið stödd hér á landi áður en veiran fór aftur að láta til sín taka um liðna helgi.

Bent er á það í frétt Fréttablaðsins að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði hefðu sent frá sér ákall til stjórnvalda um hert eftirlit og skýrari leiðbeiningar við landamærin.

„Loks þegar farið var að birta til á ný með afléttingum fáum við fregnir af mögulegu hópsmiti sem á uppruna sinn að rekja til smits sem slapp í gegnum landamærin,“ sagði meðal annars í tilkynningu samtakanna.