Sanna lýsir á­reiti á skemmti­stað: „Mig minnir að ég hafi frosið“

„Ó­vel­komin snerting og inn­rás inn í per­sónu­legt rými er eitt­hvað sem konur þurfa al­mennt oft að eiga við,“ segir Sanna Magda­lena Mörtu­dóttur, borgar­full­trúi Sósíal­ista­flokksins, í pistli sem hún skrifaði fyrir vef­ritið Flóru.

Í pistli sínum skrifar Sanna meðal annars um brúna líkama, femíníska bar­áttu og bar­áttu gegn kyn­þátta­for­dómum.

Sanna segist oft fá spurningu um það hvaðan hún er og þegar hún segist vera úr Breið­holtinu virðist það aldrei vera full­nægjandi svar. Þegar hún segist eiga ættir að rekja til Ísa­fjarðar virðist það ekki heldur full­nægjandi svar.

„Mamma mín er frá Ís­landi og er hvít á hörund en pabbi minn er frá Tansaníu í Afríku og er með dökkt litar­haft. Ég hef aldrei komið til Tansaníu, kann ekki tungu­málið sem er talað þar og ég veit lítið um hefðirnar og menninguna í því landi,“ segir Sanna meðal annars.

Hrósað fyrir góða íslenskukunnáttu

Sanna segir að í gegnum tíðina hafi ein­staklingar einnig hrósað henni fyrir góða ís­lensku­kunn­áttu. Jafn­vel furðað sig á því að hún tali ís­lensku. Hún virðist ekki vera sú eina í þessum sporum, aðrir ein­staklingar af blönduðum upp­runa hafi líka fundið fyrir þessu.

Sanna skrifaði meistara­rit­gerð í mann­fræði um við­fangs­efnið, en rit­gerðin bar yfir­skriftina „En hvaðan ertu? Upp­lifun brúnna Ís­lendinga á því að til­heyra ís­lensku sam­fé­lagi“

Í pistli sínum segir hún að niður­stöðurnar hafi sýnt að ein­staklingar voru með­vitaðir um að standa út úr í ís­lensku sam­fé­lagi, konur þó kannski frekar en karlar.

Vilja „prófa“ að sofa hjá svartri stelpu

„Konurnar í rann­sókn minni greindu til að mynda frá um­ræðum á Ís­landi þar sem fram kom að eftir­sóknar­vert þætti að stunda kyn­líf með svörtum konum. Ein talaði t.d. um að hafa orðið vör við þá um­ræðu að menn langi að „prófa“ að sofa hjá svartri stelpu. Þá hafi konur í rann­sókn hennar greint frá því að ó­kunnugir hefðu gripið í hár þeirra.

„Sjálf hef ég upp­lifað svona at­vik og sem dæmi var ég einu sinni stödd á skemmti­stað með hárið niðri og krullurnar frjálsar, þegar ég finn fingur ó­kunnugs manns í hárinu mínu. Hann segir eitt­hvað á þá leið: „Fyrir­gefðu ég hef bara aldrei komið við svona hár áður“. Mig minnir að ég hafi frosið og hugsað að ég yrði nú að vera skemmti­leg og hress og þakka fyrir hrósið en á sama tíma hugsað af­hverju er maðurinn með hendina í hárinu mínu?“

Sanna segir að í bar­áttunni fyrir jafn­rétti allra kynja þurfi að skoða allar þær hindranir sem verða á vegi okkar.

„Femínísk bar­átta og bar­áttan gegn kyn­þátta­for­dómum eiga ekki að vera tvær að­skildar bar­áttur sem eru háðar í sitt­hvoru horninu. Það er mikil­vægt að skoða alla þá þætti sem geta mótað líf kvenna og jaðar­settra hópa þegar við berjumst gegn mis­munun. Því að oft á tíðum er sú mis­munun marg­þætt, þar sem við­komandi upp­lifir t.d. nei­kvæða fram­komu vegna kyns og húð­litar. Þess vegna er nauð­syn­legt að heyra fjöl­breyttar raddir frá alls­konar ó­líkum líkömum í bar­áttunni fyrir jafn­rétti.“

Hér má nálgast grein Sönnu í heild sinni.