„Óvelkomin snerting og innrás inn í persónulegt rými er eitthvað sem konur þurfa almennt oft að eiga við,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttur, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, í pistli sem hún skrifaði fyrir vefritið Flóru.
Í pistli sínum skrifar Sanna meðal annars um brúna líkama, femíníska baráttu og baráttu gegn kynþáttafordómum.
Sanna segist oft fá spurningu um það hvaðan hún er og þegar hún segist vera úr Breiðholtinu virðist það aldrei vera fullnægjandi svar. Þegar hún segist eiga ættir að rekja til Ísafjarðar virðist það ekki heldur fullnægjandi svar.
„Mamma mín er frá Íslandi og er hvít á hörund en pabbi minn er frá Tansaníu í Afríku og er með dökkt litarhaft. Ég hef aldrei komið til Tansaníu, kann ekki tungumálið sem er talað þar og ég veit lítið um hefðirnar og menninguna í því landi,“ segir Sanna meðal annars.
Hrósað fyrir góða íslenskukunnáttu
Sanna segir að í gegnum tíðina hafi einstaklingar einnig hrósað henni fyrir góða íslenskukunnáttu. Jafnvel furðað sig á því að hún tali íslensku. Hún virðist ekki vera sú eina í þessum sporum, aðrir einstaklingar af blönduðum uppruna hafi líka fundið fyrir þessu.
Sanna skrifaði meistararitgerð í mannfræði um viðfangsefnið, en ritgerðin bar yfirskriftina „En hvaðan ertu? Upplifun brúnna Íslendinga á því að tilheyra íslensku samfélagi“
Í pistli sínum segir hún að niðurstöðurnar hafi sýnt að einstaklingar voru meðvitaðir um að standa út úr í íslensku samfélagi, konur þó kannski frekar en karlar.
Vilja „prófa“ að sofa hjá svartri stelpu
„Konurnar í rannsókn minni greindu til að mynda frá umræðum á Íslandi þar sem fram kom að eftirsóknarvert þætti að stunda kynlíf með svörtum konum. Ein talaði t.d. um að hafa orðið vör við þá umræðu að menn langi að „prófa“ að sofa hjá svartri stelpu. Þá hafi konur í rannsókn hennar greint frá því að ókunnugir hefðu gripið í hár þeirra.
„Sjálf hef ég upplifað svona atvik og sem dæmi var ég einu sinni stödd á skemmtistað með hárið niðri og krullurnar frjálsar, þegar ég finn fingur ókunnugs manns í hárinu mínu. Hann segir eitthvað á þá leið: „Fyrirgefðu ég hef bara aldrei komið við svona hár áður“. Mig minnir að ég hafi frosið og hugsað að ég yrði nú að vera skemmtileg og hress og þakka fyrir hrósið en á sama tíma hugsað afhverju er maðurinn með hendina í hárinu mínu?“
Sanna segir að í baráttunni fyrir jafnrétti allra kynja þurfi að skoða allar þær hindranir sem verða á vegi okkar.
„Femínísk barátta og baráttan gegn kynþáttafordómum eiga ekki að vera tvær aðskildar baráttur sem eru háðar í sitthvoru horninu. Það er mikilvægt að skoða alla þá þætti sem geta mótað líf kvenna og jaðarsettra hópa þegar við berjumst gegn mismunun. Því að oft á tíðum er sú mismunun margþætt, þar sem viðkomandi upplifir t.d. neikvæða framkomu vegna kyns og húðlitar. Þess vegna er nauðsynlegt að heyra fjölbreyttar raddir frá allskonar ólíkum líkömum í baráttunni fyrir jafnrétti.“
Hér má nálgast grein Sönnu í heild sinni.