Salmann Tamimi, forstöðumaður Félags múslima á Íslandi, lést í gærkvöldi. Salmann var 65 ára.
„Þessa manns verður sárt saknað,“ segir í tilkynningu sem félagið birti á Facebook-síðu sinni í hádeginu.
„Það eina sem við getum gert núna er að biðja Allah að blessa sál hans og inshallah hann verður háttsettur í paradís.“
Salmann var ættaður frá Palestínu en flutti til Íslands aðeins sextán ára gamall. Hann var í athyglisverðu viðtali við Kjarnann á síðasta ári þar sem hann fór yfir lífshlaup sitt.
„Ég var látinn finna að ég væri velkominn. Þess vegna á ég marga vini á Íslandi,“ sagði Salmann meðal annars í viðtalinu en hann kom hingað til lands sumarið 1971.
Salmann var einnig tíðrætt um að allt mannkyn stæði í sömu lífsbaráttunni, skiptir þá engu hvaða trúarbrögð viðkomandi aðhyllist eða hvernig það er á litinn.
„Allt mannkynið hefur sömu draumana og sama markmiðið; að búa í friði, hugsa um fjölskylduna, að geta alið börnin sín upp, menntað sig og geta tekið þátt í samfélaginu. Einnig að finna að maður er virtur eins og aðrir og að maður er að leggja eitthvað af mörkum fyrir landið. Það er alveg sama hvaða trúarbrögð fólk aðhyllist eða hvernig það er á litinn. Þetta eru grundvallaratriðin hjá okkur öllum. Hvítir og svartir eru að vinna að því sama,“ sagði hann.
Í viðtalinu kom hann einnig á veikindi sem hann hafði glímt við. Hann greindist með krabbamein 2019 en um var að ræða sama krabbamein og leikarinn Stefán Karl Stefánsson greindist með. Í viðtalinu kom fram að meinið hafi verið skorið burt og hann væri laus við það.
Í lok viðtalsins sagði Salmann eftirfarandi orð:
„Ekki níðast á nágranna þínum eða annarri þjóð eða drepa og ræna og arðræna. Við tökum veraldlega hluti ekki með okkur í gröfina […] Það eina sem við eigum að skilja eftir okkur er gott orð. Að við vorum gott fólk.“