Sal­mann Tamimi er látinn: „Það eina sem við eigum að skilja eftir okkur er gott orð“

Sal­mann Tamimi, for­stöðu­maður Fé­lags múslima á Ís­landi, lést í gær­kvöldi. Sal­mann var 65 ára.

„Þessa manns verður sárt saknað,“ segir í til­kynningu sem fé­lagið birti á Face­book-síðu sinni í há­deginu.

„Það eina sem við getum gert núna er að biðja Allah að blessa sál hans og inshallah hann verður hátt­settur í para­dís.“

Sal­mann var ættaður frá Palestínu en flutti til Ís­lands að­eins sex­tán ára gamall. Hann var í at­hyglis­verðu við­tali við Kjarnann á síðasta ári þar sem hann fór yfir lífs­hlaup sitt.

„Ég var lát­inn finna að ég væri vel­kom­inn. Þess vegna á ég marga vini á Ís­landi,“ sagði Sal­mann meðal annars í við­talinu en hann kom hingað til lands sumarið 1971.

Sal­mann var einnig tíð­rætt um að allt mann­kyn stæði í sömu lífs­bar­áttunni, skiptir þá engu hvaða trúar­brögð við­komandi að­hyllist eða hvernig það er á litinn.

„Allt mannkynið hefur sömu draumana og sama mark­mið­ið; að búa í friði, hugsa um fjöl­­skyld­una, að geta alið börnin sín upp, menntað sig og geta tekið þátt í sam­­fé­lag­inu. Einnig að finna að maður er virtur eins og aðrir og að maður er að leggja eitt­hvað af mörkum fyrir land­ið. Það er alveg sama hvaða trú­ar­­brögð fólk að­hyllist eða hvernig það er á lit­inn. Þetta eru grund­vall­ar­at­riðin hjá okkur öll­um. Hvítir og svartir eru að vinna að því sama,“ sagði hann.

Í við­talinu kom hann einnig á veikindi sem hann hafði glímt við. Hann greindist með krabba­mein 2019 en um var að ræða sama krabba­mein og leikarinn Stefán Karl Stefáns­son greindist með. Í við­talinu kom fram að meinið hafi verið skorið burt og hann væri laus við það.

Í lok viðtalsins sagði Salmann eftirfarandi orð:

„Ekki níð­ast á ná­granna þínum eða annarri þjóð eða drepa og ræna og arð­ræna. Við tökum ver­ald­­lega hluti ekki með okkur í gröf­ina […] Það eina sem við eigum að skilja eftir okkur er gott orð. Að við vorum gott fólk.“