Sál­fræðingur kennir for­eldrum hvernig á að varast barna­níðinga: „Gull­öld í að­gengi barna­níðinga að börnum“

„Með nú­tíma­væðingu þjóð­fé­lagsins, og til­komu inter­netsins og sam­fé­lags­miðla, hafa leiðir til að stunda barna­níð orðið fjöl­breyttari. Hafa að­ferðirnar til barna­níðs einnig þróast í takt við tímann og orðið raf­rænni en áður.“

Svona hefst pistill Stefaníu Arnar­dóttur, sem er með BA í sál­fræði, á Vísi um helgina.

Hún er segir að á netinu er barna­klám auð­að­gengi­legt og nóg er til af ber­skjölduðum börnum til að velja úr.

„Inter­netið er mið­depill net­miðaðs barna­níðs og hafa á síðast­liðnum árum orðið tækni­fram­farir í þeim að­ferðum sem barna­níðingar nota sér til fram­gangs í lífinu, rétt eins og tækni­fram­farir hafa birst á öðrum sviðum mann­lífs. Í ljósi nyt­semi sam­fé­lags­miðla mætti jafn­vel tala um gull­öld í að­gengi barna­níðinga að börnum.“

Í janúar birti Fjöl­miðla­nefnd í sam­starfi við Mennta­vísinda­stofnun hluta niður­staðna úr rann­sókninni „Börn og net­miðlar.“

Þar kom fram að á meðal barna í 4.-7. bekk hafa 63% þeirra eigin reikning á Tiktok, 60% á Snapchat, 51% á Youtu­be og 31% á Insta­gram. Fór þetta hlut­fall upp í 87% fyrir Tiktok, 95% fyrir Snapchat, 85% fyrir Youtu­be og 92% fyrir Insta­gram hjá ung­lingum í 8.-10. bekk. Í meira en helming til­fella er að­gangur þessara barna og ung­menna annað hvort opinn öllum eða vita þau ekki hvort hann sé opinn eða lokaður.

„Ger­endur barna­níðs skiptast í tvo hópa. Annars vegar þá sem fram­leiða, selja og deila barna­kláms­efni en hins vegar þá sem óska eftir því að nálgast slíkt efni eða eru leita að börnum til að mis­nota. Inter­netið hefur gert barna­níðingum kleift að eiga sam­skipti sín á milli, sam­einast í deilingu barna­kláms og veita ráð um hvernig best sé að tæla börn. At­hugið að barna­níðingar nota inter­netið og sam­fé­lags­miðla eins og hver annar myndi gera með sín á­huga­mál. Og er það á­huga­mál barna­níðingsins að finna barn sem það getur tælt til kyn­ferðis­legra at­hafna, helst án nokkurra af­leiðinga,“ skrifar Stefanía­þ

Ís­lensk börn eru mörg hver orðin snemma ansi góð í ensku, en gervi­greind og Goog­le þýðingar á ís­lensku hafa tekið fram­förum á síðustu árum. Mun slík tækni að­eins verða betri eftir því sem á líður.

Hér að neðan má sjá hvernig Stefanía brýtur niður á­hyggjurnar á hverjum sam­fé­lags­miðli fyrir sig.

Tiktok

Inn á Tiktok geturðu farið inn á Live Stream. Þar getur barnið þitt komist í beint sam­band við hvern sem er og rætt um hvað sem er, það fyrir framan á­horf­endur og í beinni. Með mynda­vélina í gangi geta aðrir séð um­hverfi barnsins, munu aðrir geta heyrt tals­máta þess og getur barnið deilt upp­lýsingum um sig. Það getur gleymt sér í sam­ræðum. Inn á Live Stream má finna barna­kláms­efni. Einnig má finna ung­linga á miðlinum sem stunda kyn­ferðis­legar at­hafnir gegn greiðslu.

Inn á Tiktok má nálgast vímu­efni og finna hlekki sem vísa inn á klám­síður. Um­ræðu­vett­vangurinn getur verið eitraður og eru þar mörg um­mæli af and­fé­lags­legum toga.

Í­myndaðu þér færni barna­níðings sem kemst í bein kynni við barn á Live Stream. Þar sem hann hefur and­lit barnsins fyrir framan sig og at­hygli þess. Það eina sem þurfti til var að­gangur að Tiktok og for­vitni. Nú getur níðingurinn, hvaðan sem er af heiminum, með kænsku, næmni og inn­sæi að vopni tælt barnið og fengið sínu fram.

Snapchat

Hvaða ung­lingur elskar ekki til­hugsunina um að senda mynd, sem þurrkast svo af yfir­borði jarðar… eða hvað? Snapchat er vin­sæll miðill á meðal barna­níðinga. Miðillinn er gjarnan notaður til að tæla börn og ung­linga. Eru börn að upp­lifa þar kyn­ferðis­lega mis­beitingu á öllum aldri. „Sex­tortion“ eða sæmdar­kúgun er þegar börnum og ung­lingum er hótað og gert að deila með of­beldis­manninum nektar­myndir af sjálfu sér. Oft hótar of­beldis­maðurinn að deila myndum eða annað efni af kyn­ferðis­legum toga sem hann hefur sjálfur áður öðlast af barninu eða telur barninu trú um að hann hafi slíkt efni undir höndum. Sumir barna­níðingar nota Snapchat til að fram­leiða barna­kláms­efni sem þeir svo dreifa til annarra níðinga.

Inn á Snapchat er hægt að nálgast vímu­efni og ýmis­konar klám.

Youtu­be

Youtu­be er vin­sælasti allra sam­fé­lags­miðla og er einna helst sá miðill sem með­limir allra yngstu kyn­slóðarinnar þekkja. Teikni­myndir eru nú til dags ein­fald­lega hluti af barn­æskunni og nota for­eldrar stundum Youtu­be til að nálgast slíkt efni. Youtu­be heimilar efni fyrir allra aldur­flokka en oft er efni ætlað þeim eldri ekki merkt sem slíkt. Inn á Youtu­be má finna tals­vert af klám­fengnu efni. Í ein­hverjum til­fellum er um að ræða hefð­bundnar teikni­myndir þar sem hljóð úr klám­mynd hefur verið sett yfir upp­runa­lega hljóðið. Erfitt getur verið að skilja á­setningin á bak­við slíkan verknað en er þetta raun­veru­leikinn sem blasir við okkur þegar hver sem er, getur deilt hverju sem er.

Algó­riþmarnir sem eiga hjálpa not­endum að sigta út ó­við­eig­andi og ó­á­huga­verðu efni er ekki allur dans á rósum. Þessa sömu algó­riþma geta barna­níðingar notað til að finna af­þreyingar­efni sem er í sam­ræmi við sitt á­huga­svið og einnig finna þær rásir sem börn nota og sækjast í.

Inn á Youtu­be getur um­ræðu­vett­vangurinn verið eitraður, eru mörg um­mæli af and­fé­lags­legum toga, hægt er að finna hlekki að klám­síðum og eru sum um­mælin barna­níðs­tengd.

Hvað eru börn að gera á sam­fé­lags­miðlum?
Hér áður fyrr var nóg um dóna­karla og níðinga. Þekktust þeir stundum með nafni í hinum ýmsum sveitum og sýslum landsins. Án efa er enn­þá nóg til af þeim og væntan­lega þekkir fólk þá enn með nafni. Ó­líkt þeim land­fræði­legum höftum sem hamlaði barna­níðinga hér á öldum áður hefur bylting í staf­rænum miðlum veitt þessum þjóð­fé­lags­hópi mun meira frelsi en var. Barna­níðingar hafa kvatt þá forna tíð þegar barna­valið ein­kenndis af því hvert fætur toguðu, bíll gat keyrt o.s.frv. Í dag hafa barna­níðingar að­gang að ó­endan­legum fjölda barna, þar sem þeir geta valið sér barn eftir smekk, mis­notað sak­leysið að vild og not­fært sér veik­leika barnsins í sam­ræmi við sína styrk­leika. Börnin geta búið hvar sem er á landinu eða hvar sem er í heiminum. Níðingurinn getur dul­búið sig sem hver sem er, vilt á sér heimildir og stundað of­beldið sitt í nafn­leynd.

Í rann­sókninni „Börn og net­miðlar“ kom fram að í yfir­gnæfandi meiri­hluta til­fella notuðu börn og ung­lingar sam­fé­lags­miðla til að eiga sam­skipti við vini sína. Börn hafa átt í sam­skiptum við hvort annað í aldanna rás. Þau hófu ekki sam­skipti sín á milli með til­komu sam­fé­lags­miðla. Við erum að flækja líf þeirra að ó­þörfu með sam­fé­lags­miðlum. Börn eru full­fær um sam­skipti án sam­fé­lags­miðla. Barn getur fundið önnur börn með svipuð á­huga­mál án þess að það þurfi sjálft að tengjast sam­fé­lags­miðli. Best væri að for­eldrar væru vakandi fyrir á­huga­málum barnsins síns og myndi bregðast við þeim þörfum.

Börn eru á­hrifa­gjörn. Langar þau iðu­lega að gera svipaða hluti og þau sjá aðra gera. Ef heimurinn þeirra sýnir þeim fá­klædd börn og ung­linga, kyn­ferðis­legt efni og ljót um­mæli, verður klóki barna­níðingurinn nánast venju­legur fyrir þeim.

Af­hverju erum við að gefa barna­níðingum yfir höfuð færi á börnin okkar með þessum hætti? Er ekki nóg að hafa augun opin fyrir dóna­körlunum út í bæ, að það þurfi ekki að bæta al­heiminum við?