Saka Dóru um „alvarleg, óviðeigandi og órökstudd brigsl og dylgjur“ í garð Eyþórs

Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar lagði fram bókun á fundi nefndarinnar í dag þar sem ummæli Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, fulltrúa Pírata, í garð Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokks, sem voru látin falla á borgarstjórnarfundi þann 15. september voru tekin fyrir en í bókuninni kemur fram að mikilvægt sé að virða siðareglur borgarstjórnar og að borgarfulltrúar gæti sanngirni í sínum málflutningi.

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands lýsa yfir sterkum vilja til að breyta menningunni og stuðla þannig að bættu vinnuumhverfi í borgarstjórn sem mun skila sér í betri vinnu í þágu borgarbúa, segir í bókun nefndarinnar.

Markmið nefndarinnar að „stöðva og kæfa í fæðingu hatursorðræðu af þessu tagi“

Þá lagði áheyrnarfulltrúi Miðflokksins fram bókun þar sem hann sakaði Dóru um að hafa uppi „afar alvarleg, óviðeigandi og órökstudd brigsl og dylgjur“ í garð Eyþórs sem ættu ekkert erindi í borgarstjórn. „Það hlýtur að vera markmið forseta borgarstjórnar og forsætisnefndar allrar að stöðva og kæfa í fæðingu hatursorðræðu af þessu tagi sem borgarfulltrúinn Dóra Björt Guðjónsdóttir viðhafði á þessum fundi.“

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði sömuleiðis fram bókun þar sem kom fram að flokkurinn harmaði það hvernig oddviti Pírata og fyrrverandi forseti borgarstjórnar hafi misnotað aðstöðu sína sem borgarfulltrúi og svert borgarstjórn með því að draga inn persónuleg málefni annarra borgarfulltrúa. Þá kom fram að þetta væri ekki í fyrsta sinn og að forseti borgarstjórnar hafi gefið henni „frítt spil til að lesa skrifaða persónulega hatursræðu um borgarfulltrúa minnihlutans.“

„Þar sem um ítrekað brot er að ræða væri eðlilegast að viðkomandi borgarfulltrúi leitaði sér aðstoðar til að ná betri yfirvegun í vinnu sinni í borgarstjórn. Einnig er komið tilefni til að borgarfulltrúinn íhugi að stíga til hliðar sem formaður mannréttindaráðs enda samræmist hegðun hennar ekki því ábyrgðarhlutverki sem formennska ráðsins krefst.“

Sakaði Eyþór um spillingu á fundi borgarstjórnar

Mikill hiti var á umræddum fundi en Dóra sakaði þar Eyþór um spillingu og ýjaði að því að Samherji hafi haft áhrif á störf Eyþórs þegar hann var oddviti flokksins á Selfossi.

„[Eyþór] virðist virðist hafa fengið fleiri hundruð milljóna að gjöf frá Samherja, í gengum fyrirtæki sem notað hefur verið sem mútufélag. Ég hef ítrekað spurt um ástæður þess án fullnægjandi svara,“ sagði Dóra á fundinum en í andsvari sínu sagði Eyþór að Dóra hafi farið með dylgjur.

„Borgarfulltrúinn Dóra Björt er dálítið upptekin af því að ráðast á aðila ... Hér dylgjar hún algjörlega út í loftið og verður sjálfri sér til minnkunar um miðbæ Selfoss og greiðslur og fleira sem er ekki bara henni til vansæmdar heldur öllum í salnum,“ sagði Eyþór enn fremur. Þá sagði hann í samtali við Fréttablaðið að það hafi verið „uppistand þegar fulltrúi Pírata opinberaði samsæriskenningar sínar,“ og að það stæðist ekki skoðun.