Rúrik minnist móður sinnar: „Hún var minn stuðnings­maður númer eitt“

Rúrik Gísla­son, lands­liðs­maður í knatt­spyrnu, minnist móður sinnar, Þóru Ragnars­dóttur, sem lést á Land­spítalanum þann 16. apríl síðast­liðinn, 66 ára að aldri.

Þóra var kennari og kenndi meðal annars við Öldu­sels­skóla, Breiða­gerðis­skóla, Selja­skóla og Snæ­lands­skóla. Þá spilaði hún körfu­bolta og var á sínum tíma ein öflugasta körfu­bolta­kona landsins. Hún var hluti af fyrsta kvenna­lands­liði Ís­lands í körfu­knatt­leik árið 1973 en þá spilaði hún með ÍR eftir að hafa spilað áður með Skalla­grími. Hún var stiga­hæst ís­lensku stúlknanna í tap­leik gegn Dönum á Norður­landa­mótinu 1973 og skoraði rúm­lega þriðjung af stigum Ís­lands í leiknum.

Þóra fæddist í Borgar­nesi þann 25. mars 1954 og giftist Gísla Kristófers­syni húsa­smíða­meistara. Þau eignuðust börnin Georg, Ó­línu og Rúrik.

Í Morgun­blaðinu í dag fer Rúrik hlýjum orðum um móður sína, en þau voru náin og héldu miklu sam­bandi þó Rúrik hafi lengi verið bú­settur er­lendis þar sem hann hefur verið at­vinnu­maður í knatt­spyrnu.

„Elsku móðir mín, sem ég átti svo ein­stakt sam­band við, elskaði svo heitt og leit mikið upp til, er látin. Það er ó­raun­veru­legt að þurfa að rita þessi orð um mömmu mína sem kvaddi allt of snemma eftir stutta bar­áttu við krabba­mein. Sorgin er mikil og mörg hjörtu eru í þúsund molum fyrir vikið. Hún var mér allt. Hún var fjöl­skyldunni allt.“

Rúrik segir að móðir hans hafi gert hann stoltan; hún hafi verið gjaf­mild og lifað fyrir að hjálpa öðrum og gefa af sér. Hún hafi verið góð móðir og góður vinur vina sinna.

„Mamma var mér hvatning og veitti mér inn­blástur. Hún gaf mér ást, um­hyggju, hlýju og gott upp­eldi. Mamma vildi öllum vel og var traust. Hún talaði ekki illa um aðra heldur var hún dug­leg að hrósa fólki og hvetja það til dáða. Mamma var með stórt hjarta og það sýndi sig svo ótal sinnum á marga mis­munandi vegu. Mamma tapaði aldrei húmornum sínum, sagði brandara fram á síðasta dag þrátt fyrir að vera mikið veik, og hló svo með sínum smitandi hlátri. Það var dýr­mætt og lær­dóms­ríkt að fá að eyða með henni síðustu dögunum á líknar­deild Land­spítalans og vil ég þakka starfs­fólkinu þar fyrir þeirra við­mót og góða starf sem þar er unnið. Minningarnar eru enda­lausar og þær munu lifa.“

Rúrik, sem í dag er bú­settur í Þýska­landi, hefur verið í at­vinnu­mennsku í fót­bolta frá árinu 2005 og búið er­lendis allan þann tíma.
„Þrátt fyrir að við byggjum hvort í sínu landinu síðast­liðin 15 ár náðum við að eyða miklum tíma saman hvort sem það var á Ís­landi eða er­lendis. Við ferðuðumst mikið saman og höfðum oft orð á því að við værum að skapa minningar. Facetime-sím­tölin hlaupa á þúsundum og byrjuðu allir dagar hjá mér á sím­tali til hennar með morgun­kaffinu. Hún var minn stuðnings­maður númer eitt, á­samt pabba, og verð ég þeim ævin­lega þakk­látur fyrir það,“ segir Rúrik sem endar grein sína á þessum orðum:

„Söknuðurinn er gríðar­legur en ég reyni að hugsa til þess sem hún sagði í hvert skipti sem við kvöddumst: „Við skulum ekki vera leið þegar við kveðjumst, heldur gleðjast og brosa þegar við hittumst næst.“ Ég verð á­fram hér og mamma er þar en í huganum verðum við alltaf á sama stað.“