Þó nokkrar umræður hafa skapast í Facebook-hópnum PlayStation á Íslandi eftir að PenninnEymundsson auglýsti Playstation 5 tölvur til sölu. Mikill skortur hefur verið á þessum tölvum og hafa mun færri fengið en vilja.
Það sem vekur einna helst athygli er verðið á tölvunum en um er að ræða stafræna útgáfu, án geisladrifs, sem kostar 154.900 krónur samkvæmt auglýsingunni. Elko selur umræddar tölvur á 79.995 krónur eins og Tölvutek sem selur vélina 79.990 krónur. Verðið hjá Pennanum er hins vegar tæplega 100 prósentum hærra.
Eins og að framan greinir hefur eftirspurn eftir Playstation 5-leikjatölvum verið mun meiri en framboðið. Hugsanleg skýring á verðinu er sú að Pennanum hafi áskotnast vélar frá birgja á hærra verði en gengur og gerist.
Í umræðum í umræddum hópi bendir einn á það sem mögulega skýringu. „Líklega hafa þeir keypt hana sjálfir dýru verði frá erlendum birgja og vilja reyna bjóða hana á háu verði frekar en að sleppa því alfarið. Mundi ekki sjálfur kaupa hana svona dýrt en mögulega eru einhverjir sem eru til í það.“
Hvað sem því líður þykir sumum nóg um og finnst verðið allt of hátt, sama hvernig á það er litið, og einhvers staðar í keðjunni sé tilgangurinn einn að græða eins mikið og hægt er.
„Ég held að þetta sé ljótt 1.apríl gabb,“ segir einn í umræðum í þræðinum.
Í Morgunblaðinu í dag er heilsíðuauglýsing frá PennanumEymundsson þar sem fram kemur að aðeins 50 vélar séu í boði. Vélarnar séu aðeins fáanlegar í verslunum fyrirtækisins í Smáralind, Kringlunnni og á heimasíðunni, Penninn.is.