Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson hvetur fylgjendur sína á Facebook til að smella ekki á skilaboð sem send hafa verið út í hans nafni að undanförnu.
Páll Óskar segir á Facebook: „Enn og aftur: Feik plat gabb. Einhver hálfviti er að senda fylgjendum mínum svona svindl skilaboð. Ég vona að þið getið séð í gegnum þetta sjálf og SMELLIÐ ALDREI Á SVONA PÓSTA,“ segir Páll Óskar.
Skilaboðin sem send eru í nafni Páls Óskars eru býsna viðvaningsleg, ef svo má segja, enda íslenskukunnátta svindlarans ekki upp á marga fiska.
„Ef þið fáið svona sendingar, þá vinsamlegast tilkynna það með því að smella á REPORT. Bæði skilaboðin sjálf og prófílinn. Því fleiri sem reporta, því meiri von um að þessi feik prófíll verði afmáður og fari fjandans til,“ segir Páll Óskar sem klykkir út með þessum orðum:
„Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem svona gerist, þetta mun eflaust gerast aftur, og ég vona innilega að þið sjáið í gegnum þetta.“
Enn og aftur: Feik plat gabb. Einhver hálfviti er að senda fylgjendum mínum svona svindl skilaboð. Ég vona að þið getið...
Posted by Páll Óskar on Fimmtudagur, 12. nóvember 2020