Páll fær enn kökk í hálsinn: Mikil gæfa að hafa lifað slysið af

„Að fá að lifa þennan hörmungar­at­burð af er mikil gæfa og ég hef alltaf getað horft á já­kvæða þáttinn,“ segir Páll Stefáns­son flug­maður í við­tali í Frétta­blaðinuí dag.

Páll komst lífs af þegar Fokker-flug­vél Flug­fé­lags Ís­lands rakst á fjallið Knúkur á eyjunni Myki­nes í Fær­eyjum árið 1970. Í nýrri bók, Mar­tröð í Myki­nesi, eftir Grækaris Djur­huus Magnus­sen og Magnús Þór Haf­steins­son er fjallað um þetta slys sem margir hafa gleymt.

Sjá einnig: Átta létust í slysinu en Valgerður komst lífs af: „Það fór hálfgerður hrollur um mig“

Páll var að­stoðar­flug­maður vélarinnar, 26 ára gamall, þegar slysið varð. Flug­stjóri vélarinnar, Bjarni Jens­son, lést við hliðina á honum og rifjar hann at­vikið upp.

„Það var mjög dramatískt, ég missti með­vitund en fékk hana aftur þegar fær­eyski yfir­dýra­læknirinn, Dánjal J. Bærent­sen, var að hjálpa mér út og mörgum öðrum. Hann hefur örugg­lega bjargað lífi mínu því hann batt um höfuð mitt, en ég hafði fengið höfuð­högg og skurð sem náði frá hægra gagn­auga upp á höfuð og blæddi mikið úr. Það er því margt í þoku fyrir mér sem gerðist þennan dag, annað en sú hamingju­til­finning sem ég fann fyrir þegar ég kom úr brakinu og sá fólkið sem hafði komist lífs af, ég fæ enn kökk í hálsinn þegar ég hugsa um hana. Enda kallaði ég nokkrum sinnum: „Við erum á lífi.““

Átta létust í slysinu en alls voru 34 um borð. Fjögurra manna á­höfn var skipuð Ís­lendingum og tveir úr far­þega­hópnum voru Ís­lendingar.

Talið er að vélin hafi verið á 300 kíló­metra hraða þegar slysið varð og því ljóst strax að um graf­alvar­legt slys var að ræða.

„Það er með ó­líkindum að allir hinir 26 skyldu halda lífi og björgunar­af­rekið sem Fær­eyingar og fleiri unnu þarna við hrika­legar að­stæður er magnað.“

Við­talið við Pál má lesa í heild sinni hér.