„Að fá að lifa þennan hörmungaratburð af er mikil gæfa og ég hef alltaf getað horft á jákvæða þáttinn,“ segir Páll Stefánsson flugmaður í viðtali í Fréttablaðinuí dag.
Páll komst lífs af þegar Fokker-flugvél Flugfélags Íslands rakst á fjallið Knúkur á eyjunni Mykines í Færeyjum árið 1970. Í nýrri bók, Martröð í Mykinesi, eftir Grækaris Djurhuus Magnussen og Magnús Þór Hafsteinsson er fjallað um þetta slys sem margir hafa gleymt.
Sjá einnig: Átta létust í slysinu en Valgerður komst lífs af: „Það fór hálfgerður hrollur um mig“
Páll var aðstoðarflugmaður vélarinnar, 26 ára gamall, þegar slysið varð. Flugstjóri vélarinnar, Bjarni Jensson, lést við hliðina á honum og rifjar hann atvikið upp.
„Það var mjög dramatískt, ég missti meðvitund en fékk hana aftur þegar færeyski yfirdýralæknirinn, Dánjal J. Bærentsen, var að hjálpa mér út og mörgum öðrum. Hann hefur örugglega bjargað lífi mínu því hann batt um höfuð mitt, en ég hafði fengið höfuðhögg og skurð sem náði frá hægra gagnauga upp á höfuð og blæddi mikið úr. Það er því margt í þoku fyrir mér sem gerðist þennan dag, annað en sú hamingjutilfinning sem ég fann fyrir þegar ég kom úr brakinu og sá fólkið sem hafði komist lífs af, ég fæ enn kökk í hálsinn þegar ég hugsa um hana. Enda kallaði ég nokkrum sinnum: „Við erum á lífi.““
Átta létust í slysinu en alls voru 34 um borð. Fjögurra manna áhöfn var skipuð Íslendingum og tveir úr farþegahópnum voru Íslendingar.
Talið er að vélin hafi verið á 300 kílómetra hraða þegar slysið varð og því ljóst strax að um grafalvarlegt slys var að ræða.
„Það er með ólíkindum að allir hinir 26 skyldu halda lífi og björgunarafrekið sem Færeyingar og fleiri unnu þarna við hrikalegar aðstæður er magnað.“
Viðtalið við Pál má lesa í heild sinni hér.