Óttar geð­læknir fær á baukinn eftir pistil í Frétta­blaðinu um helgina

Óttar Guð­munds­son geð­læknir er með skemmti­legri pistla­höfundum landsins, enda þekktur fyrir flest annað en að liggja á skoðunum sínum. Í bak­þönkum Frétta­blaðsins um helgina virðist Óttar þó hafa komið við kauninn á raf­í­þrótta­mönnum hér á landi.

Í pistli sínum á bak­síðu Frétta­blaðsins um helgina skrifaði Óttar um raf­í­þróttir og sagði frá hjónum sem komu til hans vegna sonar síns. Hjónin voru að hans sögn að gefast upp, 19 ára sonurinn væri hættur í skóla, at­vinnu­laus, og væri í tölvu­leikjum 16-18 klukku­stundir í einu. Hann mætti ekki einu sinni vera að því að borða eða sofa.

Óttar segist hafa svarað því til að þetta stæði allt saman til bóta. „Í­þrótta­hreyfingin er nefni­lega farin að skil­greina tölvu­leiki sem keppnis­í­þrótt.“ „Er þá sonur okkur í­þrótta­maður?“ sagði maðurinn van­trúaður.“

Óttar rekur svo sam­talið við hjónin, en aug­ljós­lega er um að ræða háð í garð raf­í­þrótta sem njóta vaxandi vin­sælda hér á landi. Segist hann hafa sagt hjónunum að rán­dýr í­þrótta­mann­virki yrðu senni­lega ó­þörf.

„Kepp­endur sitja heima með heyrnar­tól og pizzu­sneið og orku­drykk fyrir framan tölvu­skjá og ein­beita sér að í­þróttinni.“ „Verður kannski hætt að keppa í al­vöru-fót­bolta?“ sagði maðurinn hneykslaður og hissa. „Já,“ sagði ég, „en í staðinn verður spilaður FIFA-tölvu­leikur sem er alveg eins skemmti­legur.“ Hann segir í lok pistilsins að hjónin hafi svo gengið út án þess að kveðja.

Ólafur Hrafn Steinars­son, for­maður Raf­í­þrótta­sam­taka Ís­lands, svarar Óttari á Face­book í nokkuð löngu máli þar sem hann gagn­rýnir skrif hans.

„Sæll Óttar, þú veist greini­lega ekki hvernig upp­byggingu raf­í­þa­rótta á Ís­landi er háttað, hug­mynda­fræðina að baki henni né hvernig starfinu er hagað. Ef þú vissir það, þá vissiru að upp­bygging raf­í­þrótta­æfinga á Ís­landi felur í sér fræðslu, líkam­legar æfingar, and­legar æfingar, mark­vissar æfingar í leik­færni og loks spilun eða keppni.“

Hann segir að raf­í­þróttir séu upp­byggðar og til­komnar til að hjálpa ein­stak­lingum eins og hann lýsir í pistli sínum. „Að það sé ein­hver til staðar til að grípa inn í áður en þetta verður vanda­mál og að ein­hver út­skýri á­hrif og á­vinning af góðu líkam­legu og and­legu at­gervi í raf­í­þróttum. Að þessi skila­boð og utan­um­hald sé í boði frá yngri árum og að á­huginn á tölvu­leikjunum sé notaður til að kenna aðra hæfni sem gagnast okkur í lífinu.“

Ólafur segir að það valdi honum á­hyggjum að Óttari finnist hann vita nógu mikið um mál­efnið til að ræða það við sína kúnna og opin­ber­lega á síðum Frétta­blaðsins.

„Ég kannski held mig frá því að ræða þitt sér­svið, geð­lækningar, á niðrandi og kald­hæðinn hátt á opin­berum vett­vangi og þú heldur þig frá raf­í­þróttum? Við getum síðan sest niður við tæki­færi og rætt þetta fram og til baka, þannig að þú getir kynnt þér málin áður en þú stígur næst fram talandi um þetta eins og fræði­maður?“

Pistil Óttars og svar Ólafs fyrir neðan má lesa hér.