Óttar Guðmundsson geðlæknir er með skemmtilegri pistlahöfundum landsins, enda þekktur fyrir flest annað en að liggja á skoðunum sínum. Í bakþönkum Fréttablaðsins um helgina virðist Óttar þó hafa komið við kauninn á rafíþróttamönnum hér á landi.
Í pistli sínum á baksíðu Fréttablaðsins um helgina skrifaði Óttar um rafíþróttir og sagði frá hjónum sem komu til hans vegna sonar síns. Hjónin voru að hans sögn að gefast upp, 19 ára sonurinn væri hættur í skóla, atvinnulaus, og væri í tölvuleikjum 16-18 klukkustundir í einu. Hann mætti ekki einu sinni vera að því að borða eða sofa.
Óttar segist hafa svarað því til að þetta stæði allt saman til bóta. „Íþróttahreyfingin er nefnilega farin að skilgreina tölvuleiki sem keppnisíþrótt.“ „Er þá sonur okkur íþróttamaður?“ sagði maðurinn vantrúaður.“
Óttar rekur svo samtalið við hjónin, en augljóslega er um að ræða háð í garð rafíþrótta sem njóta vaxandi vinsælda hér á landi. Segist hann hafa sagt hjónunum að rándýr íþróttamannvirki yrðu sennilega óþörf.
„Keppendur sitja heima með heyrnartól og pizzusneið og orkudrykk fyrir framan tölvuskjá og einbeita sér að íþróttinni.“ „Verður kannski hætt að keppa í alvöru-fótbolta?“ sagði maðurinn hneykslaður og hissa. „Já,“ sagði ég, „en í staðinn verður spilaður FIFA-tölvuleikur sem er alveg eins skemmtilegur.“ Hann segir í lok pistilsins að hjónin hafi svo gengið út án þess að kveðja.
Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, svarar Óttari á Facebook í nokkuð löngu máli þar sem hann gagnrýnir skrif hans.
„Sæll Óttar, þú veist greinilega ekki hvernig uppbyggingu rafíþarótta á Íslandi er háttað, hugmyndafræðina að baki henni né hvernig starfinu er hagað. Ef þú vissir það, þá vissiru að uppbygging rafíþróttaæfinga á Íslandi felur í sér fræðslu, líkamlegar æfingar, andlegar æfingar, markvissar æfingar í leikfærni og loks spilun eða keppni.“
Hann segir að rafíþróttir séu uppbyggðar og tilkomnar til að hjálpa einstaklingum eins og hann lýsir í pistli sínum. „Að það sé einhver til staðar til að grípa inn í áður en þetta verður vandamál og að einhver útskýri áhrif og ávinning af góðu líkamlegu og andlegu atgervi í rafíþróttum. Að þessi skilaboð og utanumhald sé í boði frá yngri árum og að áhuginn á tölvuleikjunum sé notaður til að kenna aðra hæfni sem gagnast okkur í lífinu.“
Ólafur segir að það valdi honum áhyggjum að Óttari finnist hann vita nógu mikið um málefnið til að ræða það við sína kúnna og opinberlega á síðum Fréttablaðsins.
„Ég kannski held mig frá því að ræða þitt sérsvið, geðlækningar, á niðrandi og kaldhæðinn hátt á opinberum vettvangi og þú heldur þig frá rafíþróttum? Við getum síðan sest niður við tækifæri og rætt þetta fram og til baka, þannig að þú getir kynnt þér málin áður en þú stígur næst fram talandi um þetta eins og fræðimaður?“
Pistil Óttars og svar Ólafs fyrir neðan má lesa hér.